Spá 4% atvinnuleysi á næsta ári

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist umtalsvert undanfarið ár hefur …
Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist umtalsvert undanfarið ár hefur fjöldi þeirra sem eru með vinnu á Íslandi aukist líka. 4.700 fleiri voru starfandi á íslenskum vinnumarkaði í október en í október í fyrra. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Hagfræðideild Landsbankans telur líklegt að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, en þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideildin reiknar með að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 3,6% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árunum 2021 og 2022.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildarinnar, þar sem fjallað er um stöðuna á vinnumarkaði og meðal annars vísað í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og tölur frá Vinnumálastofnun um fjölda fólks á atvinnuleysisskrá.

Fleiri starfandi þrátt fyrir aukið atvinnuleysi

Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá því október voru um það bil 210 þúsund manns á vinnumarkaði í mánuðinum, sem jafngildir 81,2% atvinnuþátttöku. Þar af voru 7.400 manns atvinnulausir, en í lok mánaðarins voru um 7.700 manns á atvinnuleysisskrá samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Atvinnuleysi hefur aukist umtalsvert frá því í október í fyrra og eru rúmlega þrjú þúsund fleiri á atvinnuleysisskrá, sem er 64% aukning.

Þrátt fyrir þetta aukna atvinnuleysi hefur fjöldi þeirra sem eru með vinnu á Íslandi aukist í uppsveiflunni sem nú er að ljúka og samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar voru 4.700 fleiri starfandi á íslenskum vinnumarkaði í október en í október í fyrra.

Aukning atvinnuleysis langmest á Suðurnesjum

Í Hagsjá Landsbankans er dregið fram hvar áhrifa aukins atvinnuleysis gætir helst. Skráð atvinnuleysi hefur aukist langmest á Suðurnesjum, í október í fyrra var skráð atvinnuleysi þar 3,5% en í lok október á þessu ári var skráð atvinnuleysi komið upp í 7,3%. Þannig hefur fjöldi atvinnulausra meira en tvöfaldast á svæðinu undanfarið ár.

Næstmest var aukning atvinnuleysis á höfuðborgarsvæðinu, en þar var skráð atvinnuleysi 4% í lok október og hafði aukist um 1,5 prósentustig frá því í október í fyrra.

„Suðurnes og höfuðborgarsvæðið skera sig nokkuð frá öðrum svæðum, en þriðja mesta atvinnuleysið nú í október var á Norðurlandi eystra, 3,2%. Nú í október var atvinnuleysið minnst á Norðurlandi vestra, 1,2%, og hafði minnkað um 0,4 prósentustig milli ára,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Þróunin hægari en gert var ráð fyrir

Hagfræðideild Landsbankans segir að þróunin hvað varðar skráð atvinnuleysi hafi verið hægari en búist var við þegar staðan á vinnumarkaði virtist svört fyrr á árinu. Fjöldi uppsagna á þriðja ársfjórðungi hafi þó aukið á svartsýni um þróun vinnumarkaðarins á næstunni.

„Í þessu sambandi hafa augun fyrst og fremst beinst að ferðaþjónustu, þar sem búast mætti við hagræðingu í rekstri eftir sumarið í ljósi töluverðrar fækkunar ferðamanna. Eins og oft þegar hægir á í hagkerfinu hefur verið horft til byggingamarkaðar um fækkun starfa, en nýjustu tölur um íbúðafjárfestingu benda ekki til mikils samdráttar. Spurningin um næstu loðnuvertíð skiptir líka miklu sums staðar á landinu,“ segir hagfræðideildin.

mbl.is