Tugir desemberhitameta féllu: 19,7 stig á Kvískerjum

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands á enn eftir að fara …
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands á enn eftir að fara að veðurstöðinni í Kvískerjum til þess að staðfesta mælingar gærkvöldsins, en það verður vonandi gert fljótlega. mbl.is/Eggert

Hitamet desembermánaðar féllu unnvörpum í gærkvöldi. Hæstur mældist hitinn á Kvískerjum í Öræfum, 19,7 stig, en einnig fór hitinn í 19 stig í Bakkagerði á Borgarfirði eystra og 18,8 stig í Vestdal í Seyðisfirði, samkvæmt mælingum. Fyrra landshitamet desembermánaðar var frá 2001, en þá mældist 18,4 stiga hiti á Sauðanesvita vestan Siglufjarðar á fjórtánda degi mánaðarins.

Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallar um þessa miklu hitametahrinu á bloggsíðu sinni og segist varla muna eftir því að jafnmörg dægurhámarksmet hafi fallið sama daginn – líklega hafi það gerst á um 200 veðurstöðvum.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands á enn eftir að fara að veðurstöðinni í Kvískerjum til þess að staðfesta mælingar gærkvöldsins, en það verður vonandi gert fljótlega. Eins og mbl.is fjallaði um í gærkvöldi þótti sumum ótrúlegt að horfa upp á þær 19,7 gráður sem fram komu í sjálfvirkum mælingum stöðvarinnar.

Vakthafandi veðurfræðingur sem blaðamaður ræddi við segir að desemberhitamet hafi fallið á „mörgum tugum stöðva“ og hitinn verið mjög hár víða, en þó einungis hærri en eldra landshitamet desembermánaðar á þeim tveimur til þremur stöðum sem nefndir eru hér í upphafi. Á Norðurlandi fór hitinn víða upp í um það bil 17 gráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert