Ummæli starfsmanns ASÍ um Menn í vinnu dæmd dauð og ómerk

Aðbúnaður erlendra verkamanna var mikið til umræðu fyrr á árinu, …
Aðbúnaður erlendra verkamanna var mikið til umræðu fyrr á árinu, meðal annars vegna stöðu rúmenskra verkamanna sem töldu sig hlunnfarna af starfsmannaleigunni Menn í vinnu. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Tvenn ummæli sem María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur í vinnustaðaeftirliti hjá ASÍ, lét falla í tengslum við umfjöllun um aðstöðu rúmenskra verkamanna sem talið var að væru í nauðungarvinnu hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu, voru í dag dæmd dauð og ómerk í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hins vegar telur dómurinn ummæli Maríu þar sem hún lýsir aðbúnaði þeirra vera gildisdóm en ekki ærumeiðandi aðdróttun og er því hafnað ómerkingu þeirra ummæla.

Málið nær aftur til október árið 2018 þegar Kveikur fjallaði um aðbúnað erlendra verkamanna. Var þá meðal annars fjallað um málefni Manna í vinnu, en forstjóri Vinnumálastofnunar hafði sagt að fyrirtækið væri í gjörgæslu og var það meðal annars sektað um 2,5 milljónir vegna rangrar upplýsingagjafar til stjórnvalda.

1. febrúar á þessu ári fjallaði Stöð 2 svo um málefni rúmenskra starfsmanna sem töldu sig hlunnfarna af starfsmannaleigunni. Voru María Lóa og annar starfsmaður ASÍ á staðnum þar sem viðtalið átti sér stað og var tekið viðtal við Maríu Lóu. Sagði hún þar meðal annars: „Að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem fyrirtækið leggur inn og tekur jafnharðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.“

Tíu dögum síðar fjallaði DV nánar um málið og tók viðtal við Maríu Lóu. Sagði hún þar meðal annars: „Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almennilega en Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN-númer þeirra svo það virðist sem Menn í vinnu hafi aðgang að heimabönkum mannanna.“

Forsvarsmenn Manna í vinnu töldu þessi ummæli fela í sér meiðyrði og að ásakanir um þrælahald, nauðungarvinnu og óumbeðnar úttektir af bankareikningum feli í sér alvarlegar ásakanir um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi, en nauðungarvinna er meðal annars bönnuð í lögum.

Í vörn Maríu Lóu kom hins vegar fram að meta þurfi ummælin heildstætt og í samhengi við almenna stjórnmálaumræðu um stöðu og réttindi útlendinga á Íslandi. Þannig hafi umræða um málefni erlends vinnuafls verið áberandi, ekki síst um slæma meðferð á slíku starfsfólki. Þá sagðist hún hafa séð yfirlit Rúmenanna úr heimabanka þeirra og að ummæli hennar séu byggð á því. Að lokum verði að horfa til starfa hennar hjá ASÍ og hlutverks félagsins, sem og að félagið hafi fylgst með Mönnum í vinnu vegna kvartana.

Í dómi héraðsdóms segir að í fyrri hluta fyrri ummælanna, sem höfð voru eftir Maríu Lóu á Stöð 2, „að mínu mati er þetta nauðungarvinna og þrælahald. Þetta er mjög slæm aðstaða“, felist fremur gildisdómur um almennan aðbúnað starfsmanna en fullyrðing um staðreynd eða aðdróttun.

Hins vegar sé annað upp á teningnum með seinni hluta fyrri ummælanna: „[...] og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafnharðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum.“ Segir í dóminum að með þessum orðum sé gefið til kynna að stefnandi hlunnfari starfsmenn sína um launagreiðslur og hafi aðgang að bankareikningum þeirra og að þeir fái ekki greidd laun fyrir vinnu sína. Hafi ekki komið neitt fram við meðferð málsins sem skjóti stoðum undir þessar fullyrðingar að sögn dómsins. „Er fallist á það með stefnanda að í orðum þessum felist aðdróttanir um refsiverða hegðun stefnanda gagnvart starfsmönnum sínum [...] Er því fallist á ómerkingu þessara ummæla.“

Varðandi ummælin í DV segir í dóminum að þau séu sama marki brennd og fyrri fullyrðingin um ólögmætar úttektir af bankareikningum starfsmannanna. „Af hálfu stefndu fór engin rannsókn fram á réttmæti frásagnanna. Getur stefnda ekki skotið sér undan ábyrgð á orðum sínum með því að breiða út rangar sögur án þess að kanna réttmæti þeirra,“ segir í dóminum og er fallist á að í ummælunum felist aðdróttun um refsiverða hegðun.

Eru því ummælin „[...] og ég er búin að sjá bankareikninga hjá þeim þar sem að fyrirtækið leggur inn og tekur jafn harðan út aftur. Mennirnir komast ekki neitt og þeir eru ekki á launum“ og „Menn í vinnu legðu inn á þá til dæmis 100.000 en síðan færi 90.000 út aftur. Ég sá þessar færslur og spurði hvernig þetta væri hægt en þá vissu þeir það ekki almennilega en Halla Rut sem á fyrirtækið vildi alltaf fá að sjá og vita PIN-númer þeirra svo það virðist sem Menn í vinnu hafi aðgang að heimabönkum mannanna,“ dæmd dauð og ómerk. Hins vegar er María Lóa sýknuð af fyrri hluta fyrstu ummælanna.

Er Maríu Lóu gert að greiða Mönnum í vinnu 75 þúsund krónur til að greiða fyrir opinbera birtingu niðurstöðu málsins auk þess sem henni ber að greiða 1,3 milljónir í málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina