Veltir fyrir sér hvort stjórn RÚV skuli víkja

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/​Hari

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það íhugunarefni hvort stjórn Ríkisútvarpsins eigi ekki að víkja.

Ef hún ákveður ekki að víkja sjálf telur hann íhugunarefni hvort menntamálaráðherra eigi ekki að boða til hluthafafundar og víkja stjórninni.

Undir dagskrárliðnum störf þingsins benti Páll á að það liggi núna fyrir að Ríkisútvarpið hafi „markvisst og væntanlega meðvitað brotið lög um tveggja ára skeið“. Stjórn RÚV hefði gripið til „þess stórundarlega ráðs“ að stofnunin þyrfti að bíða eftir ákvörðun frá ríkisendurskoðun vegna málsins.

Páll nefndi einnig að RÚV hefði ákveðið að halda leyndum nöfnum umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra. Það væri að minnsta kosti brot á eigin skilningi stofnunarinnar eins og hefði komið fram í stefnuyfirlýsingu á heimasíðu hennar. Yfirlýsingin hafi núna verið tekin þaðan út.

„Þessi síendurtekni vandræðagangur og vanhæfni af hálfu RÚV skapar vantraust,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is