Verið að leika sér með fé borgarbúa

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Hari

„Þetta eru hrikalegar tölur og er bara staðfesting á því sem við í minnihlutanum höfum haldið fram. Við höfum lagt fram tillögur þess efnis að Reykjavíkurborg verði gerð að venjulegum vinnustað þar sem borgarstjórnarfundir hefjist klukkan 9 eða 10 á morgnana í stað þess að þeir séu látnir byrja klukkan tvö.“

Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is vegna frétta af því að kostnaður við þá tuttugu fundi sem borgarstjórn hefur haldið frá júlí á síðasta ári til júní á þessu ári nemi rúmum 17 milljónum króna eða 850 þúsundum að meðaltali á hvern fund. Greitt hefur verið fyrir veitingar handa borgarstjórn, útsendingar á vef borgarinnar og fyrir yfirvinnu húsvarða í Ráðhúsinu eftir klukkan sex.

Vigdís bendir á að ef fundir borgarstjórnar væru haldnir fyrr um daginn væri hægt að spara stóran hluta af þessum kostnaði. Meðal annars þar sem starfsfólk Ráðhússins og þeir sem sjá um útsendingar væru ekki á yfirvinnukaupi. Tillögur þess efnis hafi hins vegar ítrekað verið felldar af meirihlutanum í borgarstjórn.

„Við þetta bætast spurningar um það hvort fengin hafi verið tilboð í veitingarnar og hvernig þau fyrirtæki sem sjá um að senda út fundi hafi verið valin. Þannig að það er ýmislegt í þessu sem þarf að skoða,“ segir Vigdís. Þetta sé þó því miður aðeins enn eitt dæmið um vanvirðingu meirihlutans við fjármuni borgarbúa.

Verið að „beisla lýðræðisvald minnihlutans“

„Mín fyrsta tillaga í borgarstjórn var að hagræða og spara í rekstri stjórnkerfisins. Forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar og lögbundinnar þjónustu og skera niður í gæluverkefnum og bruðlinu. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Sú tillaga var felld og það er bara verið að leika sér með fé útsvarsgreiðenda,“ segir hún.

„Það væri hægt að kippa þessu í liðinn fyrir hádegi ef viljinn væri fyrir hendi en sá vilji er því miður bara ekki fyrir hendi. Það væri hægt að spara fleiri tugi milljóna á ári bara með því að lagfæra svona mál,“ segir Vigdís. Hún segir ákveðna skýringu á því að meirihlutinn vilji ekki að fundir borgarstjórnar séu haldnir fyrr um daginn.

„Meirihlutinn er oft með fyrsta málið sem er gjarnan eitthvert froðumál sem hann getur haldið gangandi langt fram yfir kvöldfréttir til þess að minnihlutinn geti ekki komið sínum málum á framfæri. Þannig er líka verið að beisla lýðræðisvald minnihlutans með því að láta fundi borgarstjórnar hefjast svona seint,“ segir hún.

mbl.is