Barnabótakerfið þarfnist endurskoðunar

Leikskólabörn á ferðinni í miðborg Reykjavíkur.
Leikskólabörn á ferðinni í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Endurskoða þarf íslenska barnabótakerfið frá grunni enda nýtist það nær eingöngu sem stuðningur við allra tekjulægstu hópana í samfélaginu. Draga þarf verulega úr tekjutengingum í kerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur heimila með börn á framfæri.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann fyrir BSRB og kynnti á fundi um barnabótakerfið sem stendur yfir á Grand hóteli.

Í skýrslunni segir að ólíkt barnabótakerfum hinna Norðurlandanna gagnist íslenska barnabótakerfið nær eingöngu foreldrum með afar lágar tekjur. Fyrir vísitölufjölskyldu með tvær fyrirvinnur nálægt meðaltekjum eru bæturnar litlar eða engar. Fjölskyldur í þeirri stöðu á hinum Norðurlöndunum fá umtalsverðar barnabætur.

Setja þarf skýr markmið

„Það þarf að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu þar sem sett verða skýr markmið og kerfið útfært þannig að það nái þeim markmiðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í tilkynningu. „Eins og við sjáum svart á hvítu í skýrslunni kemur íslenska kerfið ágætlega út þegar eingöngu er litið til tekjulágra foreldra ungra barna, en stendur barnabótakerfum hinna Norðurlandanna langt að baki þegar kemur að öllum öðrum foreldrum.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/​Hari

„Nokkurs konar fátækrarhjálp“

„Þær upphæðir sem allra tekjulægstu fjölskyldurnar fá í barnabætur á Íslandi eru háar í norræna samhenginu en það er þó að nokkru leyti bundið við fjölskyldur með ung börn. Þegar börnin hafa náð sjö ára aldri kemur íslenska barnabótakerfið verr út í samanburði við hin Norðurlöndin,“ segir meðal annars í skýrslunni.

„Barnabætur á Íslandi eru fyrst og fremst nokkurs konar fátæktarhjálp fyrir mjög tekjulágar barnafjölskyldur en í ljósi þess hve lágt skerðingarmörk bótanna liggja má vera ljóst að nokkur fjöldi lágtekjufjölskyldna fær skertar barnabætur.“

Ómarkvisst og flókið kerfi

Í skýrslunni er gagnrýnt hversu ómarkvisst og flókið íslenska kerfið er og bent á að fyrirhuguð hækkun á skerðingarmörkum skili litlum hækkunum á barnabótum fyrir foreldra og geri lítið sem ekkert fyrir tekjulægstu fjölskyldurnar. Hækkun skerðingarmarka geri þar að auki minna fyrir einstæða foreldra, sem búi við mjög auknar líkur á fátækt og fjárhagsþrengingum.

„Samanburður á barnabótakerfum Norðurlandanna er sláandi. Barnabætur á Íslandi og í Danmörku skerðast eftir tekjum foreldra, en skerðingarmörkin eru mjög ólík. Þannig skerðast barnabætur á Íslandi nærri lágmarkslaunum en í Danmörku ekki fyrr en eftir að meðallaunum er náð. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru barnabætur ekki tekjutengdar og fá því allir foreldrar sömu barnabætur óháð tekjum.“

Kolbenn Stefánsson, doktor í félagsfræði.
Kolbenn Stefánsson, doktor í félagsfræði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta þýðir að fjölskyldur á Íslandi með tvær fyrirvinnur sem eru með meðaltekjur með tvö börn sex ára eða yngri fá litlar sem engar barnabætur. Sambærilegar fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum fá frá 27.300 upp í 43.700 krónur á mánuði.

Íslenska kerfið kemur betur út fyrir launalægstu fjölskyldurnar, en aðeins á meðan börnin eru sex ára eða yngri. Fjölskyldur á Íslandi með tvær fyrirvinnur og helminginn af meðallaunum með tvö börn sex ára eða yngri fá um 46.200 krónur á mánuði. Fjölskyldur í sömu stöðu á hinum Norðurlöndunum fá á bilinu 27.300 til 46.200 krónur á mánuði. Ef börnin eru eldri en sex ára fá íslensku foreldrarnir aðeins um 24.000 krónur á mánuði en foreldrar á hinum Norðurlöndunum 27.300 til 43.700 krónur á mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert