Efla þarf málörvun barna

Margir þættir spila saman í minni lesskilningi nemenda.
Margir þættir spila saman í minni lesskilningi nemenda. mbl.is/Hari

„Skýringin er ekki einföld. Þetta á sér dýpri rætur en í lesskilningi. Ég held að það vanti upp á málörvun frá því börn eru lítil og það skilar sér í minni áhuga á því að lesa, hlusta á íslensku, horfa á og hlusta á íslenskt efni. Ég held að þetta eigi sér rætur á heimilum og leikskólum og haldi svo áfram,“ segir Hugrún R. Hólmgeirsdóttir, formaður Samtaka móðurmálskennara og framhaldsskólakennari, spurð hvað valdi slökum lesskilningi íslenskra ungmenna eins og kom fram í niðurstöðum PISA-könn­unar sem kynnt var í gær.   

Færni ís­lenskra nem­enda í lesskiln­ingi er und­ir pari ef miðað er við meðaltalið í ríkj­um OECD sam­kvæmt niður­stöðum PISA-rann­sókn­ar­inn­ar fyr­ir árið 2018. Íslensk­ir nem­end­ur voru einnig und­ir meðaltali í vís­ind­um en yfir meðaltali OECD-ríkja í stærðfræði. 

Einn af þessum þáttum sem hægt er að nýta snemma á skólagöngu barna er vinna með talmeinafræðingi inn í skólum, að mati Hugrúnar. Þeir aðstoða nemendur sem hefur bein áhrif á málþorska þeirra. „Þeir geta gert ótrúlega hluti. Málþroski barna hjálpar ekki bara við læsi. Barn sem er ekki er með málþroska á pari við félaga sína nær ekki að eiga í djúpum samskiptum við þá,“ segir Hugrún. Hvernig við notum tungumálið skiptir sköpum í samskiptum. 

Hugrún segir ábyrgð á minnkandi lesskilningi nemenda sé ekki alfarið hægt að varpa á skólakerfið og móðurmálskennslu heldur sé þetta margslungið og samspil margar þátta. Hún segir engu að síður ætli stjórn Samtakanna að funda á næstunni og ræða niðurstöður PISA.

Halda verður betur utan um nemendur með íslensku sem annað mál

Skoða þurfi hvort kennaranemar fá nægilega menntun í íslensku, en sú kennsla þarf að vera við hæfi eftir því á hvaða skólastigum þeir hyggjast kenna. Einn hópur sem kemur ekki vel út í PISA eru þeir nemendur sem eru með íslensku sem annað mál. Hugrún segir að halda verði mun betur utan um þann hóp í öllu skólakerfinu og þar þurfi tilfinnanlega að bæta kennsluefni við hæfi sem miðar að því efla orðaforða.  

Hugrún bendir einnig á að efla þurfi kennsluefni í skólunum. Það sé ekki bara bundið við námsefni í íslensku. Menntamálastofnun gefur út námsefni í grunnskólum en ekki er hægt að leita til sambærilegrar stofnunar um kennsluefni fyrir námsefni í framhaldsskólum. Hún segir að útgefendur veigri sér við að gefa út nýtt kennsluefni til að leggja fyrir nemendur. Ástæðan er meðal annars sú að það er misjafnt milli skóla hvaða efni er kennt og því er hætta á lítilli útbreiðslu því ekki er samræmi milli þess sem kennt er í skólum. Kennarar eru því stöðugt að finna upp á nýju kennsluefni í sínum hópum til að ná fram kröfum námskrár um þekkingu, hæfni og leikni í íslensku, að sögn Hugrúnar. 

Spurð hvort námsefni í grunnskólum sé orðið of gamalt og einkennist af of miklu stagli, segist Hugrún ekki vera sammála því þó vissulega mætti bæta við fjölbreyttara námsefni. Til að læra önnur tungumál þurfa nemendur að hafa góð tök á móðurmálinu sínu og þekkja málfræðihugtök. Hún segir að það sé hins vegar ekki alltaf raunin, samkvæmt upplýsingum frá kennurum í öðrum tungumálum. „Og ef það er of mikið stagl þá skilar það sér greinilega ekki alltaf,” segir hún en tekur fram að nemendur sem koma upp í framhaldsskóla séu vissulega misvel undirbúnir.  

Hún segir að nemendur verði líka að fá tækifæri til að „gíma við krefjandi verkefni sem reynir á djúpan skilning fremur en að láta mata sig,“ segir hún og tekur fram að hún sé bjartsýn á framtíðina enda aragrúi af frábærum krökkum sem eru vel máli farnir og hugsandi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert