Skráðum í Þjóðkirkjunni fækkar um ríflega 1.500

Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 1.518 manns frá …
Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 1.518 manns frá 1. desember á síðasta ári. Nú eru 231.154 einstaklingar skráðir í Þjóðkirkjuna, eða um 63,5% landsmanna. mbl.is/Hari

Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 1.518 manns frá 1. desember á síðasta ári. Nú eru 231.154 einstaklingar skráðir í Þjóðkirkjuna, eða um 63,5% landsmanna. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár.

Fjöldi skráðra einstaklinga í trú- og lífsskoðunarfélög þann 1. desember ár hvert ræður því hversu há sóknargjöld renna til félaganna á komandi ári. Fram kemur í samantekt Þjóðskrár að fækkun hafi orðið í alls 22 af þeim 54 trúfélögum sem starfa á Íslandi.

Flestir fara úr Þjóðkirkjunni, en hlutfallsleg fækkun er mest hjá trúfélaginu Zuism. Þar voru 1.255 skráðir félagar á fyrsta degi mánaðarins og fækkaði þeim um 375 frá 1. desember í fyrra sem nemur rúmlega 23% fækkun.

Fjölgun hefur orðið í nokkrum af fjölmennustu trú- og lífsskoðunarfélögum landsins. Félögum í Siðmennt og Kaþólsku kirkjuna hefur fjölgað um meira en sex hundruð frá fyrra ári og Kaþólska kirkjan er næstfjölmennasta trúfélag landsins með 14.554 skráða félaga.

Rúmlega 21% landsmanna ekki í trúfélagi

Mest fjölgun hefur þó orðið í hópi þeirra sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Þeim fjölgaði um 1.260 síðasta árið og eru nú alls 26.023, eða 7,2% landsmanna.

Þá eru ríflega 52 þúsund einstaklingar hérlendis, 14,3% landsmanna, ekki með tilgreinda trúfélagsskráningu og fjölgar í þeim hópi um yfir 5.700 manns frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert