11% nota ljósabekki

Ljósabekkjanotkun fullorðinna Íslendinga er 11% samkvæmt könnuninni. Mynd úr safni.
Ljósabekkjanotkun fullorðinna Íslendinga er 11% samkvæmt könnuninni. Mynd úr safni.

Ljósabekkjanotkun fullorðinna á Íslandi mælist 11% og hefur nokkurn veginn staðið í stað síðan árið 2013. Þetta sýnir könnun um notkun ljósabekkja sem nýlega er lokið og framkvæmd var af Gallup fyrir hönd samstarfshóps Geislavarna, embættis landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins.

Niðurstöðurnar sýndu að um 11% fullorðinna höfðu notað ljósabekki einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum, en ekki reyndist vera marktækur munur á ljósabekkjanotkuninni á milli ára.

Könnunin hefur verið framkvæmd árlega frá árinu 2004. Á þessu tímabili hefur dregið mjög verulega úr notkun ljósabekkja. Árið 2004 höfðu um 30% fullorðinna notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði, en frá árinu 2013 hefur þessi tala verið um 10%.

Í tilkynningu frá Geislavörnum kemur fram að notkun ljósabekkja fylgi aukin hætta á húðkrabbameini og ráðleggja norrænu geislavarnastofnanirnar fólki frá því að nota ljósabekki í nýlegri yfirlýsingu. Þá er vísað í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2017, en þar segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert