Dagblöð koma út þrátt fyrir vinnustöðvun

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Vinnustöðvun blaðamanna sem starfa við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og tökumanna, hófst klukkan 10 í morgun og stendur yfir til klukkan 22 í kvöld.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir vinnustöðvunina hafa farið fram samkvæmt áætlun. „En mér sýnist nú samt að blöðin komi út á morgun, sama hvernig það er gert, væntanlega er eitthvað unnið fyrirfram en það kemur bara í ljós,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

Blaðamenn á netmiðlum lögðu niður störf í þrígang í nóvember, auk ljósmyndara og tökumanna, en þetta er í fyrsta sinn sem vinnustöðvunin nær til blaðamanna á prentmiðlum. 

Blaðamenn hittust í húsnæði Blaðamannafélagsins í Síðumúla í hádeginu og fóru yfir stöðu mála og hvert framhaldið verður. Þetta var síðasta boðaða vinnustöðvunin en blaðamenn felldu í síðustu viku nýjan kjarasamning BÍ og SA. Síðasti fundur samninganefnda SA og BÍ var á þriðjudag og ekki hefur formlega verið boðað til næsta fundar en Hjálmar býst við að hann verði fljótlega eftir helgi. 

Aðspurður hvort boðað verði til frekari verkfallsaðgerða segir Hjálmar að fyrst verði að meta stöðuna. „Við leyfum rykinu aðeins að setjast og áttum okkur aðeins betur á því og hvernig við getum best staðið að því að ná kjarasamningi við okkar viðsemjendur sem er markmiðið eftir sem áður,“ segir Hjálmar.  

Viðbótarfrestur veittur vegna kæru til félagsdóms

Kæra Blaðamanna­fé­lags­ins vegna meintra verk­falls­brota á mbl.is í verk­föll­um 8. og 15. nóvember var þing­fest 19. nóvember í fé­lags­dómi og var báðum aðilum veitt­ur tveggja vikna frest­ur til þess að skila inn grein­ar­gerðum vegna máls­ins. Sá frestur rann út á þriðjudag en nú hefur verið veittur viðbótarfrestur fram á þriðjudaginn í næstu viku. 

„Þetta tekur einhverjar vikur í viðbót en það er nauðsynlegt að fá niðurstöðu,“ segir Hjálmar.

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert