Einitítan kyndir undir jólastemningunni

Einitítu má m.a. finna í lífviðargreinum sem eru vinsæll efniviður …
Einitítu má m.a. finna í lífviðargreinum sem eru vinsæll efniviður í aðventukrönsum landsmanna. Ljósmynd/Heimur smádýranna

Aðventukransar eru ómissandi í aðdraganda jólanna á flestum heimilum en þeim geta fylgt ýmsir óboðnir gestir. Flestir þeirra eru þó meinlausir og það á einmitt við um einitítuna sem er nokkuð árviss slæðingur sem boðar jól. 

Erling Ólafsson skordýrafræðingur vekur athygli á einitítunni á Facebook-síðunni Heimi smádýranna þar sem hann er iðinn við að setja inn ýmsan fróðleik um skordýr. 

„Í aðdraganda aðventu flytja blómaverslanir inn aðskiljanlegt skraut og glingur, meðal annars lífviðargreinar sem þykja ómissandi þegar að því kemur að græja aðventukransinn. Sumir eru heppnari en aðrir og fá einitítu í kaupbæti með lífviðargreinunum. Segi heppnir því hér er á ferð almeinlaust og einkar fagurt smádýr til þess eins að dást að og njóta. Einitítan kyndir undir jólastemningunni,“ segir í færslu Erlings og með fylgir mynd af einitítu sem barst með skrauti inn á heimili í borginni fyrir skömmu. 

Einitíta er jurtasuga sem nærist á safa einiberja og skyldra tegunda sömu ættar eins og lífviði.

 

Hér má lesa um einitítu á vef Náttúrufræðistofnunar. 

mbl.is