Eldhaf breiddist út vegna brennandi potts

Upptök eldsvoða sem varð í kjallaraíbúð við Mávahlíð í Reykjavík …
Upptök eldsvoða sem varð í kjallaraíbúð við Mávahlíð í Reykjavík aðfaranótt 23. október eru talin mega rekja til þess að eldur hafi komið upp í olíu í potti og að eigandi íbúðarinnar hafi reynt að hlaupa með hann út, en potturinn dottið í gólfið. mbl.is/Eggert

Upptök eldsvoða sem varð í kjallaraíbúð við Mávahlíð í Reykjavík aðfaranótt 23. október eru talin mega rekja til þess að eldur hafi komið upp í olíu í potti og að eigandi íbúðarinnar hafi reynt að hlaupa með hann út, en potturinn dottið í gólfið. Ungt par brenndist afar illa í brunanum og hafa þau farið í fjölda aðgerða, bæði hér á landi og í Svíþjóð, þar sem konan dvelur enn. Fjallað var um málið kvöldfréttum RÚV.

Í frétt RÚV er haft eftir lögreglu að talið sé að eigandi íbúðarinnar hafi verið að steikja sér mat í olíu, kviknað hafi í olíunni og maðurinn brugðist við með því að reyna að hlaupa með pottinn út. Það hafi þó ekki gengið betur en svo að hann hafi misst pottinn í gólfið, þannig að brennandi olía fór út um allt og eldhaf breiðst út. Eldsvoðinn er enn til rannsóknar.

Eigandi íbúðarinnar komst út af sjálfsdáðum, en hið sama gilti ekki um þau Sól­rúnu Öldu Waldorff og Rahmon Anvaron, sem lágu sofandi í herbergi sem Rahmon leigði í íbúðinni. Þau voru bæði í lífshættu eftir brunann, en slökkviliði tókst að ná þeim út úr glugga.

Parið er nú komið úr lífshættu, en fram kom í frétt RÚV að 35% líkama Sólrúnar væri með annars eða þriðja stigs bruna og um 50% af líkama Rahmons. Bæði munu þau þurfa að fara í fjölda aðgerða til viðbótar vegna áverkanna og sagði móðir Sólrúnar við RÚV að fjölskyldan væri undir það búin að að verja jólunum í Linköping í Svíþjóð, þar sem Sólrún hefur verið á spítala frá 25. október.

Mikilvægt að koma sér út og hringja eftir hjálp

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu mætti í beina útsendingu í kvöldfréttir og sagði að meginreglan væri að nota eldvarnarteppi til þess að eiga við eld sem upp komi í olíu í pottum. Þá mætti mögulega setja lok yfir pottinn, þó viss áhætta gæti fylgt því.

Ef eldvarnarteppi sé ekki við hendina ætti fólk að koma sér frá aðstæðunum, „vera ekki að glíma við svona hluti, loka hurðum ef hægt er að loka koma sér út og hringja“ eftir hjálp.

mbl.is