Fékk svör um starfslokasamning Haraldar

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárlaganefnd Alþingis hefur fengið svör við fyrirspurn sem hún sendi í gær til dómsmálaráðherra um starfslokasamning Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra.

Svörin verða að öllum líkindum rædd á fundi nefndarinnar í dag. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, segist ekki telja að tilefni sé til að kalla ráðherra á fund nefndarinnar vegna málsins.

Óskað var eftir svörunum í framhaldi af fundi nefndarinnar í gær. „Þetta er hluti af verklagi nefndarinnar og eðlilegt í samræmi við eftirlit með framkvæmd fjárlaga, sem er hlutverk okkar nefndar,“ segir Willum.

Beðið var um upplýsingar um hvernig samningurinn er kostnaðarmetinn og hvaða heimildir dómsmálaráðuneytið ætlar að nýta til að fjármagna samninginn. Einnig var beðið um það formsins vegna að vísa í lagaheimildir, sem eru réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og á hverju samningurinn byggir.

Willum minnist einnig á boðaðar skipulagsbreytingar varðandi löggæslumál í landinu og telur að alþjóða- og menntamálanefnd muni kalla ráðherra á fund sinn til að kanna þau mál frekar þegar á líður. „Mér finnst það ekkert ólíklegt. Ég held að ráðherrann hafi leyst nokkuð vel úr flókinni stöðu.“

Har­ald­ur mun verða dóms­málaráðherra til ráðgjaf­ar varðandi mál­efni lög­regl­unn­ar í þrjá mánuði eftir að hann hættir sem ríkislögreglustjóri um áramótin. Að því loknu tek­ur starfs­loka­samn­ing­ur við og fel­ur hann í sér að ráðherra geti leitað sér ráðgjaf­ar hans á fimmtán mánaða tíma­bili. Að því loknu fer rík­is­lög­reglu­stjóri á biðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert