Gleðitíðindi sem trompa jólin

Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur starfað innan fangelsanna undanfarin 27 ár. …
Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur starfað innan fangelsanna undanfarin 27 ár. Hún sagði gleðitíðindin í morgun trompa jólin. mbl.is/Þorsteinn

Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur starfað í fangelsiskerfinu síðustu 27 ár. Hún segir nýtt geðheilsuteymi og breytingar sem verði í geðheilbrigðisþjónustu við fanga, sem kynnt var í morgun, hafa rosalega mikla þýðingu. „Þetta er það sem við erum búin að bíða eftir,“ segir hún í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund á Hólmsheiði þar sem breytingarnar voru kynntar.

Björk var greinilega brugðið á fundinum, en þó á mjög jákvæðan hátt. „Ég vissi ekki af fundinum í morgun, ég vissi að eitthvað væri í bígerð, en ekkert hafði kvisast út,“ segir hún. Spurði hún meðal annars út í hversu margir starfsmenn yrðu í teyminu og hvenær það hæfi störf. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra svaraði því til að fimm starfsmenn yrðu í fullu starfi og að teymið hefði í raun „byrjað í gær“. Var ljóst af viðbrögðum Bjarkar að hún trúði þessum fréttum varla.

„Þetta eru þvílík gleðitíðindi“

„Ég er alveg að komast á eftirlaun og ég get ekki hætt að vinna hérna fyrr en þetta kemst í eitthvert gott horf og þetta er allt að gerast núna,“ segir hún við mbl.is. „Að heyra þetta núna, þetta eru þvílík gleðitíðindi. Jólin geta bara farið núna, í alvöru,“ segir hún glöð í bragði.

Um er að ræða umtalsverða viðbót við þá sem hafa komið að málaflokki fanga hingað til. „Ég var ein í þessu hérna á höfuðborgarsvæðinu í 25 ár, en fékk hjúkrunarfræðing með mér í þetta fyrir tveimur árum.“ Nú sé hins vegar að koma heilt geðteymi, fimm í fullu starfi.

„Þeir fóru héðan út í ekki neitt“

Hún segir þetta munu skipta miklu máli fyrir fangana og bæta mikið þjónustu sem hægt sé að veita. „Þetta er bara bylting, þeir munu fá viðtöl, fá sinnu og verða settir í farveg,“ segir hún og bætir við að einnig sé verið að efla geðteymin úti í samfélaginu og þar með verði fangar tengdir inn í þau þegar þeir ljúka afplánun. Það sé mikil breyting frá því sem áður var. „Þeir fóru héðan út í ekki neitt.“ Segir Björk að með þessu verði því bæði til vettvangur fyrir fanga innan veggja fangelsisins sem og utan þess.

mbl.is