Heilsubrestur hrjáir fjórðung þjóðarinnar

Árið 2018 bjó ein af hverjum þremur konum við heilsufarslegar …
Árið 2018 bjó ein af hverjum þremur konum við heilsufarslegar takmarkanir í daglegu lífi borið saman við einn af hverjum fimm körlum sama ár. Árni Sæberg

Þriðjungur íbúa á Íslandi stríðir við langvarandi veikindi. Hlutfall fólks sem býr við takmarkanir í daglegu lífi sökum heilsufars hefur aukist undanfarin 10 ár. Árið 2008 var hlutfallið 16,1%, en það var 26,0% 10 árum seinna. Heilsufar kvenna er mun verra en karla.

Seinustu ár hefur aukningin ekki verið tölfræðilega marktæk á milli ára, en hlutfallið 2018 er þó marktækt hærra en fyrir fimm árum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.

Maltverjar heilsuhraustastir en Lettar veikastir

Hlutfallið á Íslandi árið 2018 er svipað og hlutfallið er að jafnaði í ríkjum Evrópusambandsins  en árið 2018 bjuggu að meðaltali 24,7% Evrópubúa við heilsufarslegar takmarkanir. Árið 2018 fundu fæstir fyrir heilsufarslegum takmörkunum á Möltu, eða 11,9%, en flestir í Lettlandi, eða 40,0%. Mælingarnar miða við bæði þá sem búa við nokkrar takmarkanir og verulegar takmarkanir vegna heilsubrests. Á Íslandi skiptist hlutfallið nokkuð jafnt á milli þeirra sem telja að heilsufar hamli daglegu lífi nokkuð og þeirra sem lifa með verulegar takmarkanir vegna heilsubrests.

Langtímaveikindi eru algengari meðal kvenna og hafa verið það frá upphafi mælinga, árið 2004. Að sama skapi eru konur líklegri til að finna fyrir takmörkunum í daglegu lífi vegna heilsubrests, miðað við karla. Árið 2018 bjó ein af hverjum þremur konum við heilsufarslegar takmarkanir í daglegu lífi borið saman við einn af hverjum fimm körlum sama ár. Þeir sem eru eldri eiga frekar við langvarandi veikindi að stríða og búa við meiri heilsufarslegar takmarkanir en yngra fólkið. Til dæmis á þriðjungur í aldurshópnum 45—54 ára við langvarandi veikindi að stríða borið saman við nær helming í aldurshópnum 65 ára og eldri.

Heilsa lágtekjufólks verri en ríkra

Hærra hlutfall fólks með grunnmenntun býr við langvarandi veikindi og takmarkanir sökum heilsufars borið saman við fólk með háskólamenntun. Árið 2018 bjó til dæmis um einn af hverjum þremur með grunnmenntun við heilsufarslegar takmarkanir borið saman við einn af hverjum fimm með háskólamenntun. Hlutfall þeirra sem lifa með heilsufarslegar takmarkanir í daglegu lífi er einnig hærra meðal þeirra með lágar tekjur, en einn af hverjum þremur í lægsta og öðrum tekjufimmtungi bjó við takmarkanir vegna heilsufars árið 2018. Í hærri tekjufimmtungum hamlaði heilsufar einum af hverjum fjórum til einum af hverjum fimm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert