Kemur fangelsiskerfinu „endanlega inn í 21. öldina“

Páll Winkel fangelsismálastjóri á fundinum í morgun. Hann segir samkomulagið …
Páll Winkel fangelsismálastjóri á fundinum í morgun. Hann segir samkomulagið núna tákna byltingu fyrir fanga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær ráðstafanir sem ráðist er í samkvæmt samkomulagi Sjúkratrygginga Íslands og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem skrifað var undir í morgun, munu hafa mjög mikla þýðingu fyrir fanga hér á landi. Bæði mun þetta auka aðgengi þeirra að geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu sjálfu auk þess að búa til tengingu yfir á geðdeildir landsins. Þá ætti þetta að skila sér í aukinni vímuefnameðferð fyrir fangana. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í samtali við mbl.is að um byltingu sé að ræða.

Framlög aukin um 70 milljónir frá því sem áður var

Samkvæmt samkomulaginu er heilsu­gæsl­unni falið að sinna geðheil­brigðisþjón­ustu við fanga í öll­um fang­els­um lands­ins. Stofnað verður sér­hæft þverfag­legt geðheilsu­teymi fanga sem mun starfa með og styðja við starf­semi heilsu­gæsl­unn­ar í fang­els­um. Samhliða verður framlag ríkisins til geðheilbrigðisþjónustu fanga aukið um 70 milljónir frá því sem áður hefur verið, en áður hafði verið greint frá því að 55 milljónir ættu að bætast við þennan málaflokk.

„Í 30 ár gerðu stjórnvöld ekki neitt

Páll sagði á kynningarfundi í morgun að fangar hefðu undanfarna áratugi verið afgangsstærð þegar kæmi að geðheilbrigðismálum. „Í 30 ár gerðu stjórnvöld ekki neitt. Alltaf einhver plön en ekkert gert,“ sagði hann og bætti við að undanfarið hefði verið mikil vitundarvakning. „Ég er mjög þakklátur að þetta sé að gerast núna.“

Páll segir við mbl.is að það sé sérstaklega ánægjulegt að sjá að öll ráðuneytin sem komi að málefnum fanga séu nú að vinna að málefnum fanga sem heildstæðri lausn. „Þetta er bara byrjunin,“ segir hann. „Einnig aðgerðaáætlun dómsmálaráðuneytis og vinna félagsmálaráðuneytis og vonandi menntamálaráðuneytisins í kjölfarið. Þetta mun koma íslenska fangelsiskerfinu endanlega inn í 21. öldina. Ég er ánægður með það og þetta er stór dagur.“

Fíkniefnamál meðal fanga hafa ítrekað komið upp og Páll segir að fangelsismálayfirvöld séu í sífelldri baráttu við að koma efnunum út. „En við þurfum líka að geta boðið mönnum upp á afeitrun, þurfum að geta boðið upp á eitthvað annað en að vera í þessari vímu. Það dugar ekki að leita bara á öllu og öllum. Við þurfum líka að bjóða upp á þessa þjónustu og þarna er vísir að því,“ segir hann.

„Ég geri ráð fyrir að þetta sé algjör bylting“

Spurður út í samanburð á geðheilbrigðismálum fanga áður og svo núna því sem verður segir Páll að um gríðarlega breytingu sé að ræða. „Staðan hingað til hefur verið þannig að við höfum ekki haft aðgang að neinum geðlækni. Þarna er sérmenntaður geðlæknir sem fer fyrir hópnum og hefur auk þess mikla reynslu af þessu og þessum geira. Það mun strax skipta miklu máli, þótt það væri ekki nema ráðgjöf fyrir mitt starfsfólk.“ Hingað til hefur aðeins einn hjúkrunarfræðingur séð um þessi mál á höfuðborgarsvæðinu en enginn geðlæknir.

Páll segir ekki síður mikilvægt að með stofnun þverfaglegs geðheilbrigðisteymis skapist tengingar við geðdeildir landsins og þannig verði auðveldara að koma andlega veikum föngum inn á sjúkrastofnanir. „Ég geri ráð fyrir að þetta sé algjör bylting,“ segir hann.

Verkefnið er undirbúningsverkefni til eins árs og verður á þeim tíma safnað gögnum og skoðað hvernig best sé að hátta starfseminni til framtíðar. Páll segir að þjónustan muni byrja á Hólmsheiði, en svo fara í öll fangelsi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert