Konur fara oftar í golf, karlar spila fleiri holur

Konur fara oftar í golf en karlar.
Konur fara oftar í golf en karlar.

Þegar karlar fara í golf er líklegra að þeir leiki 18 holur, sem tekur gjarnan á fimmta klukkutíma. Konur spila hins vegar oftar golf en karlarnir, en fara þá oftar aðeins níu holur.

Nær helmingur kvenna eða 49% spilar golf þrisvar í viku eða oftar, sambærilegt hlutfall meðal karla er 41%. Þeir sem eru undir meðaltekjum eru iðnari við golfið en þeir sem eru yfir þeim.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úr könnun Gallup sem birt var á golfþingi GSÍ í nóvember. Um var að ræða netkönnun og var úrtakið unnið úr félagaskrá GSÍ. Leitað var til 5.746 kylfinga og svöruðu 1.899 þeirra eða 33%.

Að meðaltali leika kylfingar golf 2,4 sinnum í viku á þeim árstíma sem mögulegt er að spila golf, karlar 2,3 sinnum og konur 2,5 sinnum. Mest er iðkunin í aldurshópnum 18-24 ára en kylfingar á því aldursbili fara í golf 3,8 sinnum í viku og 44% þeirra spila fimm sinnum í viku eða oftar. Minnst er virknin í hópnum 35-44 ára en fólk á þeim aldri leikur golf 1,8 sinnum í viku. 47% kylfinga 65 ára og eldri spila golf oftar en þrisvar í viku, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert