Lögþvingun líklega samþykkt fyrir jól

Loftmynd af Grenivík í Grýtubakkahreppi. Sveitarstjórnin þar er lítt hrifin …
Loftmynd af Grenivík í Grýtubakkahreppi. Sveitarstjórnin þar er lítt hrifin af sameiningu við annað sveitarfélag. mbl.is/Sigurður Bogi

Búist er við því að Alþingi afgreiði frumvarp varðandi stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir jól. Í því eru áform stjórnvalda um lögþvingun sameiningar sveitarfélaga.  

Kynnt voru drög að nefndaráliti á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Að sögn Jóns Gunnarssonar, 1. varaformanns nefndarinnar, er ekki tímabært að greina frá innihaldinu því fínslípun er enn í gangi. „Við erum að gera ákveðnar breytingar á því sem leiðir til þess að það stefni í að það verði breiðari sátt í málinu,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann telur að málið verði afgreitt úr nefndinni annað hvort á morgun eða strax eftir helgi og gerir hann ráð fyrir því að þingið afgreiði frumvarpið fyrir jólin.

Þingsályktunartillaga gerði ráð fyrir því að lágmarkssveitarfélagi íbúa sveitarfélaga verði 250 frá árinu 2022 en 1.000 frá árinu 2026. Jón vildi ekkert tjá sig um þær breytingar sem gerðar hafa verið. Hann vonast aftur á móti til að stuðningur náist út fyrir stjórnarflokkana.

Andstaða frá minni sveitarfélögum  

Áform um lögþvingaða sameiningu hafa mætt andstöðu margra af minni sveitarfélögum landsins. Það birtist meðal annars í umsögnum um þingsályktunartillöguna. 23 sveitarfélög sendu inn umsagnir og var lögþvingun mótmælt eða lýst yfir efasemdum í 14 þeirra. Sjö af stærri sveitarfélögum landsins lýstu yfir stuðningi. Stefnan var samþykkt á sérstöku landsþingi sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt um málið.

Frumvarpið verður líklega samþykkt fyrir jól.
Frumvarpið verður líklega samþykkt fyrir jól. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is