Akureyri í naflaskoðun eftir PISA

Rýnt verður í ýmsa þætti í skólastarfinu á svæðinu.
Rýnt verður í ýmsa þætti í skólastarfinu á svæðinu. Morgunblaðið/Hari

Nemendur á Norðurlandi eystra stóðu sig marktækt verr í lesskilningi í PISA 2018 en í PISA 2015. Þrátt fyrir að á síðustu árum hefur rík áhersla verið lögð á læsi í grunnskólunum og meðal annars unnið samkvæmt stefnunni Læsi er lykillinn. 

Í ljósi niðurstaðanna funduðu allir skólastjórar á Akureyri í vikunni með fræðslusviði bæjarins og fóru yfir stöðuna. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, segir að nú sé unnið að því að horfast í augu við þetta, læra af þessu og meta hvað verður gert í framhaldinu. Á síðustu árum hefur áhersla í skólakerfinu á þessu svæðinu verið lögð á að efla læsi, með fyrrgreindri læsisstefnu.

Sú stefna, Læsi er lykillinn, var unnin í samstarfi þriggja sveitarfélaga við Eyjafjörð og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Misjafnt er hvaða aðferðum er beitt við lestrarkennslu í grunnskólum á Norðurlandi eystra, til að mynda vinnur hluti grunnskóla Akureyrarbæjar samkvæmt Byrjendalæsi. Það var þróað á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri í samvinnu við sex skóla á Norðurlandi skólaárin 2004 til 2006. Alls hafa um 80 grunnskólar af 170 víðs vegar um landið innleitt byrjendalæsi í samstarfi við HA. Karl bendir á að þrátt fyrir að skólar hafi innleitt byrjendalæsi er ekki öruggt að þeir fari eftir þeirri stefnu.  

„Við þurfum meðal annars að sannreyna hvað við erum að gera í skólunum. Spyrja þarf hvort unnið sé í samræmi við það sem lagt var upp með? Erum við að nota þvær matsaðferðir á framförum nemenda sem við sögðumst ætla að nota?” spyr Karl. Þetta eru þættir sem verða kortlagðir innan skólanna í bænum til að bregðast við ástandinu. Hann tekur fram að mikilvægt sé að skoða þetta í raunhæfu ljósi og af yfirvegun án þess að varpa ábyrgðinni yfir á aðra.

Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar.
Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar. Ljósmynd/Aðsend

Spurður hvort til greina kemur að endurskoða stefnuna, Læsi er lykillinn, ítrekar Karl að fyrstu skrefin séu að taka stöðuna í öllum skólunum. Hluti af því að kortleggja hana er að kalla eftir gögnum úr öllum skólum. „Starfshættir fagfólks verða alltaf að vera í takti við þann sem við erum að þjóna. Við verðum alltaf að fylgjast með framförum nemendanna og hver staða þeirra er. Við verðum að svara því í framhaldinu ef raunin er sú að ekki er verið að vinna samkvæmt markaðri stefnu, hvað við ætlum við að gera til að hjálpa börnunum að taka þeim framförum sem við teljum að þau geti tekið. Það er meginhugsun okkar,“ útskýrir Karl.

Í þessu samhengi bendir hann á að skoða verði  hvernig unnið er með niðurstöður staðlaðra prófa sem lögð eru fyrir til dæmis lesferilpróf og samræmd könnunarpróf. Öllum steinum verði velt við til að fá skýra mynd af stöðunni, segir Karl. 

Fyrst verður safnað saman öllum könnunum sem eru lagðar fyrir í grunnskólum og kallað eftir því hvernig unnið er með lesskilninginn. Karl bendir á að starfshættir kennara eru stærsti einstaka áhrifaþátturinn í námi barna og skólastjórnendur geta haft mest áhrif á starfshætti kennara í þeirri keðju. Í skýrslu OECD frá 2010 segir orðrétt: “..gæði menntakerfis geta aldrei orðið meiri en gæði kennsluhátta einstakra kennara.” Það er því okkar sameiginlega verkefni að styðja við kennara í starfi og að færa mál til betri vegar.

Hægt er að nota ýmsar kennsluaðferðir við lestrarkennslu. Innan fræðanna eru sérfræðingar ekki sammála um bestu aðferðirnar. Byrjendalæsi hefur til að mynda sætt gagnrýni. „Byrjendalæsi byggist upp á því að nota fleiri en eina leið í lestrarkennslu. Hún virka fyrir marga en ekki alla,” segir Karl og bætir við „vandinn við Byrjendalæsi sem og aðrar aðferðir og stefnur er að fylgja þarf því eftir að starfað sé eftir þeim aðferðum, Það er engin trygging fyrir því að svo sé gert.“

Hann viðurkennir að það myndi auðvelda vinnuna sem framundan er ef Akureyrarbær fengi niðurstöður PISA skóla bæjarins svo unnt væri að vinna betur með þær. Menntamálastofnun hefur synjað beiðni Akureyrarbæjar um það. Hins vegar liggur fyrir að um ⅔ hlutar nemenda af Norðurlandi eystra eru á Akureyri og því er hægt að álykta um niðurstöður út frá því.

Taka fleiri sameiginlegar ákvarðanir

Miðstýring er einn af þeim þáttum sem Karl telur að þurfi að auka innan skólakerfisins. Ís­lenskt mennta­kerfi er dreif­stýrt – það er ekki mik­il miðstýr­ing í gangi. Þetta kemur fram í úttekt OECD. Karl bendir á að það væri skref í rétta átt að taka sameiginlegar ákvarðanir og fara eftir þeim.

Máli sínu til stuðnings vísar hann til Eistlands en þar var farið í menntaumbætur og rík áhersla lögð á miðstýringu og bindandi ákvarðanir sem allir þurftu að lúta. Árangurinn varð mikill. „Hér þyrfti sem dæmi  að fylgja betur eftir innleiðingu núgildandi aðalnámskrár grunnskóla sem ekki var gert á sínum tíma. Það væri til bóta. Kaflinn um námsmat er gott dæmi um það svo vísað sé til umræðunnar á Seltjarnarnesi nýlega,“ segir Karl. Á mánudaginn var felld niður kennsla vegna óánægju með ummæli kjörinna fulltrúa í bæj­ar­stjórn Seltjarnarnes um námsmat í grunnskóla bæjarins.  

Karl bendir á að nemendur á grunnskólaaldri verja að meðaltali innan við 20% af vökutíma sínum í skólanum á 10 ára tímabili. Að mati Karls er færni í móðurmálinu, hugtakaskilningur eða orðaforði er því ekki á ábyrgð eins aðila heldur margra, aðallega foreldra og skóla en ekki síður fjölmiðla eða þeirra sem hanna smáforrit í hinum stafræna heimi. Vert er að hafa þetta í huga þegar læsi grunnskólanemenda er til umræðu. 

mbl.is