Tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á Spot

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í …
Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl árið 2018. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag tíu mánaða skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni á fertugsaldri fyrir stórfellda líkamsárás sem átti sér stað á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi árið 2014.

Fórnarlambið hlaut heilaskaða, meðal annars með varanlegri heyrnarskerðingu á hægra eyra, tapi á lyktar- og bragðskyni, hægari hugsun, gloppóttu minni, kvíða og þunglyndi auk skerðingar á þoli og úthaldi, líkamlegu og andlegu.

Líkamsárásin átti sér þannig stað að gerandinn hrinti brotaþola með báðum höndum þannig að maðurinn féll í gólfið með áðurnefndum afleiðingum. Dómur féll upphaflega í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2016 en sá dómur var ómerktur í Hæstarétti og málinu vísað aftur til meðferðar í héraði.

Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi manninn svo í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára í apríl 2018 og var sá dómur staðfestur af Landsrétti í dag. Einkaréttarkrafa brotaþola var skilin frá sakamálinu og var tekin til meðferðar í sérstöku einkamáli.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hefði ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot en árásin hefði hins vegar verið stórfelld, tilefnislaus og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið vegna dráttar á meðferð málsins.

Dómur Landsréttar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is