Endurgreiðslur til fjölmiðla verði 18% af ritstjórnarkostnaði

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Haraldur Jónasson/Hari

Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um stuðning við einkarekna fjölmiðla hefur verið birt á vef Alþingis. Ef það verður samþykkt verður heimilt að endurgreiða 18% af kostnaði sem fellur til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.

Upphaflega var miðað við að endurgreiðslur gætu numið 25% af kostnaði fjölmiðla en nú er ljóst að hlutfallið er minna. Endurgreiðsla til einstaks fjölmiðils verður að hámarki 50 milljónir króna á ári. Sérstök úthlutunarnefnd mun fara yfir umsóknir og samþykkja, hafna eða vísa þeim frá eftir atvikum.

Undir endurgreiðsluhæfan kostnað falla meðal annars beinn launakostnaður blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara vegna öflunar og miðlunar á efni.

Beinar verktakagreiðslur falla sömuleiðis þar undir hafi aðkeyptu efni frá verktökum verið sannarlega miðlað.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það er smíðað að danskri fyrirmynd. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna þessa verði ekki meiri en 400 milljónir króna á ári hverju.

Frumvarpið á vef Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert