Engin leit að rjúpnaskyttu í ár

Nóv­em­ber var óvenju hægviðrasam­ur en rjúpna­veiðitíma­bilið var 22 dagar í …
Nóv­em­ber var óvenju hægviðrasam­ur en rjúpna­veiðitíma­bilið var 22 dagar í nóv­em­ber. mbl.is/Golli

Rjúpnaveiðitímabilið gekk óvenjuvel í ár. Ekki var leitað að neinni týndri rjúpnaskyttu sem hlýtur að teljast til tíðinda. Hins vegar óskaði einn villtur rjúpnaveiðimaður eftir aðstoð björgunarsveita á Norðurlandi. Þegar sveitirnar voru rétt farnar af stað var aðstoðin afturkölluð því maðurinn rataði aftur rétta leið til byggða. 

„Við erum hæstánægð með þetta,“ segir Þór Þorsteinsson formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjörg. Hann rekur ekki minni til að slíkt hafi áður gerst en þorir þó ekki að fullyrða um það. Hann telur samspil góðrar tíðar, lengra veiðitímabil og betur útbúnir veiðimenn skýri þessa stöðu.  

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotveiðifélagsins Skotvís, tekur í sama streng og Þór. „Ég man ekki eftir hausti þar sem ekki var leitað að einhverjum,“ segir hann glaður.  

Rjúpnaveiðimenn eru hófsamari en áður fyrr.
Rjúpnaveiðimenn eru hófsamari en áður fyrr. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Í ár var leyft að ganga til rjúpna í 22 daga í nóv­em­ber. Veiða mátti alla daga mánaðar­ins nema miðviku­daga og fimmtu­daga. Áki segir að þetta létti ákveðinni pressu af mönnum og þeir hafi því ekki verið að ana af stað í tvísýnu veðri því þeir höfðu fleiri daga til umráða.  

Nóvember var óvenju hægviðrasamur og tíð hagstæð. Óvenju þurrt var um landið norðanvert og var mánuðurinn víða þurrasti nóvembermánuður um áratugaskeið, eins og fram kemur í yfirliti yfir tíðarfar Veðurstofu Íslands.

Miklar og hraðar breytingar hafa orðið á tækninýungum sem veiðmenn nýta sér. Flest allir eru með síma sem er með innbyggðu korti sem nýtast ótrúlega vel. Áttavitinn klikkar aldrei og hann þarf að vera alltaf með í för, áréttar Áki því hann verður aldrei rafmagnslaus.

Áki nýtti sér sjálfur kort í símanum sínum til að fara á nýtt svæði. „Það var ótrúlega skemmtilegt þrátt fyrir að ég hafi ekki veitt mikið,“ viðurkennir hann. Á því svæði var rjúpan á stangli og veiddist að meðaltali ein rjúpa á 10 kílómetra. Það er ekki mikið og segir Áki að líklega megi skýringuna rekja til góðviðris. 

Ekki var leitað að rjúpnaskyttu í ár.
Ekki var leitað að rjúpnaskyttu í ár. mbl.is/Golli

„Það vantaði ákveðnara veður til að þjappa rjúpunni saman. Þetta er það fallega við rjúpnaveiðina að maður veit aldrei í hverju maður lendir,” segir Áki. Meiri líkur eru á að rjúpan hópi sig saman í slæmu veðri og stífri vindátt en fyrir vikið eru slíkir hópar auðveldari skotmörk veiðimanna. 

Heilt yfir telur Áki að rjúpnaveiðin hafi gengið nokkuð vel. „Það var ekkert eitt svæði sem stóð upp úr og annað lá alveg niðri,“ segir Áki. Hugarfar rjúpnaveiðimanna hefur breyst talsvert á síðustu áratugum að mati Áka. Menn eru hófsamari og stæra sig ekki af því ef þeir ná ekki að hemja sig. „Ég held að flestir hafi að veiða í matinn fyrir sig og sína fyrir jólin,” segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert