Hraðamæling lögreglu var í samræmi við verklagsreglur

Talið var nægilega sannað að hraðamælingin hefði farið fram samkvæmt …
Talið var nægilega sannað að hraðamælingin hefði farið fram samkvæmt verklagsreglum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan

Karlmaður á tvítugsaldri var í Landsrétti í dag sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið yfir leyfilegum hámarkshraða og dæmdur til að greiða 115 þúsund krónur í sekt að viðlagri vararefsingu. Landsréttur sneri við dómi Héraðsdóms Suðurlands sem hafði sýknað manninn vegna skorts á sönnun brots og ósamræmis milli framburðar lögreglumanna og framlagðra gagna.

Málið var þingfest í september árið 2018 og var maðurinn ákærður fyrir að hafa ekið bifreið sinni vestur Suðurlandsveg á 124 km/klst þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst eftir að hraði bifreiðar hans mældist á 128 km/klst við hefðbundið umferðareftirlit lögreglunnar á Suðurlandi. Vikmörk mælingarinnar var 4 km/klst.

Fyrir héraðsdómi hélt ákærði því fram að lögreglumennirnir sem mældu hraða bifreiðar hans með ratsjá hafi ekki fylgt verklagsreglum Ríkislögreglustjóra um hraðamælingar með ratsjá frá 2002. Radarinn hafi ekki verið prófaður fyrir og eftir hraðamælinguna eins og reglur gera ráð fyrir.

Meðal gagna málsins var myndbandsupptaka úr lögreglubifreiðinni sem og vettvangsskýrsla. Héraðsdómur taldi að ósamræmi væri milli gagna málsins og framburðar lögreglumannanna þar sem að tímasetningar á vettvangsskýrslu og myndbandsupptökunni voru ekki þær sömu.

Vegna vafa sem var talinn vera uppi um framkvæmd hraðamælingarinnar sem og prófun radarsins fyrir og eftir hraðamælinguna var ákæruvaldið ekki talið hafa náð að axla sönnunarbyrði og maðurinn því sýknaður.

Landsréttur var ekki á sama máli og taldi hraðamælingu hafa verið samkvæmt verklagsreglum. Þá var vísað til þess að ákærði hefði gengist við brotinu með því að skrifa undir vettvangsskýrsluna.

Ósamræmi milli framburðar lögreglumanna og gagna málsins var talið nægilega vel útskýrt til að sakfella manninn. Ósamræmið fólst í því að klukka í myndbandsupptökubúnaði var ekki rétt stillt og því í ósamræmi við tímasetningu sem rituð var á vettvangsskýrslu af lögreglumanni sem notaðist við úrið sitt.

Búnaðurinn sem var notaður var af gerðinni Raptor og í leiðbeiningum með honum kemur fram að öðru hvoru geti þurft að leiðrétta innbyggða klukku hans. Var því talið nægilega sannað að verklagsreglum um hraðamælingum hefði verið fylgt með því að prófa radarinn bæði fyrir og eftir hraðamælinguna.

mbl.is