Ráfandi um á nærfötunum einum

Lögreglan var beðin um að aðstoða manneskju sem var ráfandi um miðborgina á nærfötunum einum á níunda tímanum í gærkvöldi. Lögreglan veitti viðkomandi aðstoð við að komast til síns heima. Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og sinnti hún 54 verkefnum frá klukkan 17 til fimm í morgun.

Um klukkan 18 var tilkynnt til lögreglu um fólk í annarlegu ástandi í anddyri fjölbýlishúss í Árbænum.Var því vísað út úr húsinu og  aðstoðað við að komast heim. 

Kvartað var til lögreglu yfir manneskju í annarlegu ástandi sem var til vandærða og með læti í miðborginni (hverfi 101) um kvöldmatarleytið. Lögreglan fjarlægði viðkomandi og kærði fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Tilkynnt var um innbrot í Hafnarfirðinum síðdegis í gær og er málið í rannsókn en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort brotist var inn á heimili eða fyrirtæki.

Eldur var kveiktur við skóla í Austurbænum í gærkvöldi (hverfi 105) og sagt að börn væru að verki. Þegar lögregla kom á vettvang voru krakkarnir á bak og burt en smáræði af brunnum blöðum við skólann. Eins kom upp eldur í skilti í verslun í hverfi 101 á tólfta tímanum í gærkvöldi en búið að slökkva hann þegar lögregla kom á vettvang.

Um miðnætti var kvartað yfir samkvæmishávaða frá íbúð í hverfi 101. Lögregla fór á vettvang og var húsráðanda gert að lækka.

mbl.is