Sér ekki rökin fyrir ótekjutengdu barnabótakerfi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þótt barnabætur séu lægri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum eru heildarútgjöld hins opinbera vegna barna- og fjölskyldumála aftur á móti svipuð.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í tilefni af nýrri skýrslu Kolbeins Stefánssonar, doktors í félagsfræði, um barnabótakerfið á Íslandi.

Fram kemur í skýrslunni að endurskoða þurfi barnabótakerfið frá grunni enda nýtist það nær eingöngu sem stuðningur við allra tekjulægstu hópana í samfélaginu. Draga þurfi verulega úr tekjutenginum í kerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur heimila með börn á framfæri.

Horfa þarft til heildarstuðnings

Bjarni segir skýrsluna mikilvægt innlegg í umræðu um skatta- og bótakerfin á Íslandi. Varðandi tekjutenginguna nefnir hann að barnabætur á yfirstandandi ári séu áætlaðar rúmlega 12 milljarðar. Ótekjutengt barnabótakerfi hefði kostað 28 milljarða.

„Mér finnst sjálfsagt að skoða virkni barnabótakerfisins. Ég sé ekki rökin fyrir því á Íslandi að taka upp ótekjutengt kerfi og tel sanngjarnast að nota takmarkaða fjármuni til að styðja við þá tekjulægri. Þegar gerður er alþjóðlegur samanburður verður að taka heildarstuðning við barnafjölskyldur með í reikninginn. Þar stöndum við Íslendingar okkur bara býsna vel. Það ætti ekki að koma neinum á óvart því hér er gott að búa og frábært að ala hér upp börn,“ skrifar hann á Facebook-síðu sína.

Kolbeinn Stefánsson er hann kynnti skýrsluna.
Kolbeinn Stefánsson er hann kynnti skýrsluna. mbl.is/RAX

Gagnast einstæðum foreldrum verr

Kolbeinn svarar honum á síðunni og segist ekki mæla sérstaklega með ótekjutengdu barnabótakerfi í skýrslunni. „Rökin með slíku kerfi eru helst þau að það eigi að virka hvetjandi á frjósemi íbúa landsins en eins og ég bendi á í skýrslunni eru niðurstöður rannsókna á sambandi barnabóta og frjósemi allt annað en skýrar. Ég hef líka sagt í viðtölum í fjölmiðlum að það sé ekkert að því að barnabótakerfi skili meiru til hinna tekjulægri,“ skrifar hann.

„Í því samhengi finnst mér skipta meira máli hvort kerfið nái nægilega vel til tekjulægri fjölskyldna en í því samhengi horfi ég sérstaklega til einstæðra foreldra og barna þeirra sem búa við umtalsvert meiri hættu á fátækt og fjárhagsþrengingum en aðrar barnafjölskyldur, en hækkun skerðingarmarka gagnast einstæðum foreldrum verr en foreldrum í hjúskap,“ bætir hann við.

mbl.is