Þórður og Sólveig sýknuð af 2,3 milljarða bótakröfu

Þórður Már Jóhannesson, sem var forstjóri Gnúps, var sýknaður í …
Þórður Már Jóhannesson, sem var forstjóri Gnúps, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag af kröfum Lyfjablóms. mbl.is/Golli

Þórður Már Jóhannesson og Sólveig Pétursdóttir voru í dag sýknuð af kröfu Lyfjablóms ehf. sem krafðist samtals 2,3 milljarða króna í skaðabætur vegna háttsemi stjórnenda fjárfestingafélagsins Gnúps árið 2006. Var sýknað á grundvelli fyrningalaga og tómlætis stefnanda. Lyfjablóm var dæmt til að greiða hvoru þeirra tvær milljónir króna í málskostnað.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi  Reykjavíkur en lögmaður Lyfjablóms sagði að því loknu að of snemmt væri að segja til um næstu skref og hvort niðurstöðunni yrði áfrýjað til Landsréttar. Fyrst þyrfti að leggjast vel yfir dóminn.

Við aðalmeðferð málsins kom fram að Þórður Már og Helgi Arnarson, endurskoðandi Gnúps, könnuðust ekki við viðskipti upp á um 1,6 milljarða króna en millifærslur áttu sér stað degi eftir að Þórður greiddi inn tveggja milljarða hlutafé sitt í félagið. 

Gnúp­ur var fjár­fest­ing­ar­fé­lag sem var stofnað árið 2006. Eign­ar­haldið var á hönd­um þriggja hópa. Fyrst var það Magnús Krist­ins­son sem átti ásamt fjöl­skyldu sinni 46,5% í fé­lag­inu. Þá áttu fé­lög í eigu Krist­ins Björns­son­ar og þriggja systra hans 46,4% og Þórður Már Jó­hann­es­son átti 7,1%. Stofn­un fé­lags­ins var þó öllu flókn­ari en að þess­ir aðilar hafi lagt til fjár­magn í hlut­falli við eign­ar­hlut­inn og um það snýst m.a. dóms­málið.

Stefn­andi í mál­inu er fé­lagið Lyfja­blóm, en það var móður­fé­lag utan um eign­ir Krist­ins Björns­son­ar og fjöl­skyldu og hét áður Björn Hall­gríms­son ehf., í höfuðið á föður systkin­anna. Var fé­lagið í jafnri eign Krist­ins og systr­anna þriggja og öll sátu þau í stjórn fé­lags­ins. Síðar urðu breyt­ing­ar á eign­ar­haldi fé­lags­ins.

Stofnað fyr­ir 13 árum

Saga Gnúps byrj­ar á því að fé­lagið AB 36 ehf. var stofnað af Þórði Má fyrri hluta árs­ins 2006. Strax eft­ir stofn­un var nafni fé­lags­ins breytt í Þúfu­bjarg. Í októ­ber 2006 kaupa fé­lög­in MK-44 og Suðurey ann­ars veg­ar og SK II og SKE II hins veg­ar þetta eigna­lausa fé­lag á 1,6 millj­arða af Þórði og eiga því 50% hlut hvort um sig.

Fyrr­nefndu fé­lög­in voru í eigu Magnús­ar og fjöl­skyldu, en hin síðar­nefndu í eigu Krist­ins og fjöl­skyldu. Greiddu fé­lög­in 800 millj­ón­ir hvort, en fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki Krist­ins fengu þessa upp­hæð að láni frá Glitni.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Lögðu fjöl­skyld­urn­ar svo eign­ir sín­ar í Kaupþingi og FL Group inn í hið nýja fé­lag, en það voru eign­ir upp á tugi millj­arða.

Sam­hliða þess­um viðskipt­um fær fé­lagið Brekka II, sem var í eigu Þórðar, að kaupa sig inn í nýja fé­lagið (sem átti eft­ir að verða að Gnúpi) fyr­ir tvo millj­arða. Barst sú upp­hæð í þrem­ur greiðslum inn á reikn­ing fé­lags­ins og var Þórður ráðinn for­stjóri hins nýja fé­lags.

Dag­inn eft­ir inn­borg­un hluta­fjár Þórðar Más greiðir hins veg­ar Gnúp­ur sam­tals 1.600 millj­ón­ir til baka til þess­ara fjög­urra fé­laga sem svo greiða Glitni láns­upp­hæðina, 800 millj­ón­ir frá fé­lög­um hvorr­ar fjöl­skyldu, sem þau notuðu til að kaupa Þúfu­bjarg ehf af Þórði Má.

Hagnaður og hrun

Eitt ár líður og eign­ir Gnúps hækka gríðarlega og fé­lagið skil­ar 1,9 millj­arða hagnaði árið 2006. Hagnaður fyrstu sex mánuði árs­ins 2007 var sam­kvæmt árs­hluta­reikn­ingi 12,7 millj­arðar og heild­ar­eign­ir 90,4 millj­arðar og 49% eig­in­fjár­hlut­fall.

Þegar líður á árið 2007 fara hins veg­ar óveðurs­ský að hrann­ast upp og er óskað eft­ir að eig­end­ur leggi til aukið hluta­fé sem inn­spýt­ingu vegna lausa­fjárskorts. Eig­end­urn­ir samþykktu það, en sjö vik­um síðar, í janú­ar 2008, var fé­lagið komið í þrot og gert var sam­komu­lag við lán­ar­drottna fé­lags­ins. Tók bank­inn yfir stjórn­un Gnúps, en í sam­komu­lag­inu er þó ít­rekað tekið fram að ekki verði farið fram á gjaldþrot þess. Þá geng­ust þeir Magnús, Krist­inn og Þórður í per­sónu­lega ábyrgð fyr­ir að 1,6 millj­arða eign­ir væru í fé­lag­inu, þrátt fyr­ir að um skuld­ir hluta­fé­lags með tak­markaða ábyrgð væri að ræða. Á móti lýsti Glitn­ir yfir að bank­inn myndi fyr­ir­gera rétti til skaðabóta á hend­ur stjórn­end­um Gnúps. Hef­ur mbl.is áður fjallað ít­ar­lega um þau mál og sögu Gnúps.

Bank­inn hafði einnig tekið yfir fé­lagið Björn Hall­gríms­son og flutt­ist það yfir í slita­bú Glitn­is eft­ir fall bank­ans. Syst­ur­son­ur Krist­ins, Björn Scheving Thorsteinsson, fékk að kaupa fé­lagið og stend­ur það nú í mála­ferl­un­um. Sjónum var sérstaklega beint að þess­um 1.600 millj­óna milli­færsl­um, sem í til­felli fjöl­skyldu Krist­ins námu 800 millj­ón­um. Farið var fram á Þórður Már og Sól­veig Pét­urs­dótt­ir, fyrr­ver­andi ráðherra sem sit­ur í óskiptu búi eft­ir Krist­in, greiddu sam­eig­in­lega 800 millj­ón­ir vegna þeirra.

Dómur héraðsdóms í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina