Vilmundur Guðnason hlýtur verðlaun Ásu Wright

Vilmundur Guðnason ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Jóni …
Vilmundur Guðnason ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands við athöfnina sem haldin var í Þjóðminjasafninu í dag. Ljósmynd/Jón Örn Guðbjartsson

Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlaut heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright í dag fyrir brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og erfðum þeirra. Forseti Íslands afhenti Vilmundi verðlaunin við hátíðlega athöfn.

Verðlaunin eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem hefur náð framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki sínu nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til þess að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi hjarta- og æðasjúkdómum.

Þá stýrir hann Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem byggist á hinni 50 ára löngu Reykjavíkurrannsókn og svokallaðri REFINE Reykjavík rannsókn hjá yngri aldurshópi. Gögn úr þessum rannsóknum hafa m.a. verið nýtt í alþjóðlegu samstarfi til þess að varpa skýrara ljósi á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og samstarfi við innlenda og erlenda aðila hefur hann birt fjölmargar vísindagreinar í þekktustu vísindatímaritum heims, m.a. um áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. 

Nýjustu rannsóknir Vilmundar tengjast ýmsum þáttum öldrunar, allt frá beinþynningu til heyrnartaps, lungnasjúkdóma og bandvefsmyndunar í lungum, háþrýstings og æðakölkunar. 

Vilmundur hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar í tvo áratugi og er prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands þar sem hann leggur áherslu á erfðir hjarta- og æðasjúkdóma.

Hann hefur verið gestavísindamaður við Centre for Cardiovascular Genetics hjá Royal Free og University College í London og hjá Institute of Public Health við Háskólann í Cambridge. 

mbl.is