Fagnaðarefni að loks sé komið frumvarp

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir fagnaðarefni að frumvarp um styrki til fjölmiðla hafi loks litið dagsins ljós. Menntamálaráðherra dreifði frumvarpinu í gær, en þar er kveðið á um að fjölmiðlar skuli styrktir um „18% af kostnaði sem fell­ur til við að afla og miðla frétt­um, frétta­tengdu efni og um­fjöll­un um sam­fé­lags­leg mál­efni,“ en þó ekki meira en 50 milljónir hver.

Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir að styrkurinn skyldi nema 25% af kostnaði, en ekki virðist hafa náðst samstaða um það innan stjórnarflokkanna vegna andstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokks. „Auðvitað hefði maður viljað sjá meiri pening, en þetta er mikilvægt fyrsta skref,“ segir Hjálmar, sem saknar þess þó að sjá ekki sérstaka styrki til rannsóknarblaðamennsku.

Sérhæfðir miðlar skildir eftir

Meðal þeirra krafna, sem gerðar eru til styrkþega, er að efnistök séu fjölbreytt og fyrir almenning á Íslandi, en undanþága frá þessu ákvæði er gerð fyrir staðbundna miðla. Eftir stendur þó að ekki er gert ráð fyrir styrkjum til fjölmiðla sem fjalla um sérhæfðari málefni. Hefur Hafliði Breiðfjörð, ritstjóri Fótbolta.net, til að mynda bent á að frumvarpið skekki samkeppnisstöðu miðilsins gagnvart íþróttadeildum annarra miðla.

Hjálmar tekur undir með Hafliða. „Þetta er allt of þröng skilgreining, og við munum taka á því í okkar umsögn. Form lýðræðislegrar umræðu er alls konar og þessi skilyrði eru algjörlega óþörf.“

Bæta þurfi RÚV tekjumissi

Samhliða áformum um styrki til fjölmiðla, hafa málefni Ríkisútvarpsins verið mjög til umræðu að undanförnu, einkum hvort RÚV beri að hætta að selja auglýsingar, — eða hætta á auglýsingamarkaði, eins og það er kallað á stofnanamáli. Umræðan er þó ekki ný af nálinni, en ellefu ár eru síðan þáverandi menntamálaráðherra boðaði einmitt það. 

Viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra.

Hjálmar segir það lengi hafa verið skoðun Blaðamannafélagsins að skilgreina þurfi stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði betur, en jafnframt að bæta RÚV upp það tekjutap sem af hlytist. „Það hefur legið fyrir áratugum saman að ríkisreknir fjölmiðlar í norðanverðri Evrópu eru jafnan ekki á auglýsingamarkaði, og ef þeir eru það þá er staða þeirra á markaði vel skilgreind, og settar skorður. Ég held að það sé kominn tími til að skoða það,“ segir Hjálmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert