Samþykktu frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar samþykktu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær að hefja frumkvæðisathugun á því hvernig Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hygðist láta meta hæfi sitt vegna tengsla við útgerðarfélagið Samherja og hvort tilefni hefðu verið til slíkrar athugunar fyrr í ráðherratíð hans. RÚV greindi fyrst frá.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Andrés Ingi Jónsson, sem nýverið gekk úr þingflokki Vinstri grænna, samþykktu tillöguna, en aðeins þarf þrjú atkvæði til að samþykkja slíka tillögu.

Er Kristján tók við embætti árið 2017 lýsti hann því yfir að hann myndi láta meta hæfi sitt ef upp kæmu mál sem snertu Samherja sérstaklega, en Kristján var stjórnarformaður félagsins til ársins 1998, auk þess að vera æskuvinur Þorsteins Más Baldvinssonar, sem nýlega lét af störfum sem forstjóri fyrirtækisins, í það minnsta tímabundið.

Í umræðum á Alþingi í síðasta mánuði spurði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, Kristján að því hve oft hann hefði látið meta hæfi sitt vegna mála sem vörðuðu Samherja, frá því hann tók við embætti. Var svar ráðherra á þá leið að aldrei hefði komið til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert