Sjálfstæðismenn leggi stein í götu Lilju

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að andstaða sjálfstæðismanna við fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningamálaráðherra komi sér ekki á óvart. Heilt yfir styðji sjálfstæðismenn ekki vel við mál Lilju. „Ef maður er að skoða yfir heildina er greinilegt að hún þarf að hafa mikið fyrir því að koma sínum málum í gegn, sem mörg hver eru alveg ljómandi,“ sagði Þorgerður Katrín.

Hún var á meðal gesta í Vikulokunum á Rás 1 í morgun þar sem var farið yfir helstu fréttamál vikunnar, meðal annars fjölmiðlafrumvarpið, sem var lagt fram á Alþingi í gærkvöldi í breyttri mynd. Sjálfstæðismenn hafa verið gagnrýnir á frumvarpið og setja þingmenn flokksins fyrirvara við samþykkt þess.

„Mér finnst þetta ekki gott frumvarp og mér finnst að menn hefðu átt að ná einhverri betri samstöðu um þetta frumvarp í ríkisstjórninni áður en þetta fór í gegn þar,“ sagði Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins um málið og lýsti yfir efasemdum um að meirihluti yrði fyrir frumvarpinu innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

„Hvað ertu að blanda þessu saman?“

Í samhengi umræðna um fjölmiðlafrumvarpið var einnig rætt um stöðu RÚV. Þorgerður Katrín sagði RÚV mikilvægt og það hefði ekki síst komið í ljós á síðustu vikum, þegar RÚV hefði verið leiðandi í umfjöllun um Samherjaskjölin. Sagði hún að viðbrögð ákveðinna hópa við því máli, þar á meðal sjálfstæðismanna, hefði helst verið að vilja draga tennurnar úr Ríkisútvarpinu. Það sagði Þorgerður Katrín að væri „aumkunarvert“.

„Hvað ertu að blanda þessu saman? Þetta er svo hallærislegt,“ sagði Brynjar. „Þetta snýst ekkert um þetta,“ sagði þingmaðurinn og bætti því við að það væri „fráleitur málflutningur“ að halda því fram að tilvist RÚV væri forsenda fyrir uppljóstrun Samherjaskjalanna.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert