Steinunn Inga skipuð skólameistari FVA

Steinunn Inga Óttarsdóttir hefur verið skipuð skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á …
Steinunn Inga Óttarsdóttir hefur verið skipuð skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Steinunn Inga Óttarsdóttir hefur verið skipuð skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði hana í embættið sem settur mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menntamála sagði sig frá því að skipa í embættið, vegna dómsmáls sem Ágústa Elín Ingþórsdóttir fyrrverandi skólameistari FVA höfðaði gegn ríkinu. Miklar deilur voru á milli Ágústu og kennara við skólann í aðdraganda þess að Lilja auglýsti stöðuna lausa til umsóknar.

Ríkið var sýknað af kröfum Ágústu Elínar í upphafi vikunnar, en skólameistarinn hélt því fram að hún hefði ekki verið látin vita af því að Lilja hygðist auglýsa embætti hennar með tilhlýðilegum fyrirvara. Fram kom í frétt mbl.is um niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur að málinu yrði líklega áfrýjað til Landsréttar.

Steinunn Inga er starfandi framkvæmdastjóri Félags framhaldsskólakennara og var áður áfangastjóri bóknáms við Menntaskólann í Kópavogi. Hún er MA í hagnýtri menningarmiðlun (2019), diplóma í vettvangsnámi í stjórnun framhaldsskóla (2012), diplóma í mannauðsstjórnun (2008), MA í íslenskum bókmenntum (1996), M.Paed í íslensku (1994) og lauk kennaraprófi B.Ed. árið 1991, samkvæmt því sem fram kemur á vef stjórnarráðsins.

mbl.is