Steinunn Ólína sækir um stöðu útvarpsstjóra

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Saga Sig

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fjölmiðlakona, er á meðal umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra. Hún greinir frá þessu í færslu á Facebook. Steinunn er menntuð í leiklist frá Drama Center í London. Hún var var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið til ársins 2005, og sneri aftur til leikhússins árið 2017. Þá ritstýrði hún Kvennablaðinu frá árinu 2013, þar til blaðið lagði niður laupana fyrr á árinu.

Í fésbókarfærslunni fer Steinunn ítarlega yfir stöðu Ríkisútvarpsins, sem hún segir eiga að vera fjölmiðill allra landsmanna. RÚV sé fastur punktur í tilverunni sem allflestir hafi einhvern snertiflöt við, en svo sé það ekki í allra augum. Stofnunin fái reglulega yfir sig skammir fyrir óþægilegar og afhjúpandi fréttir frá reiðum hagsmunaaðilum sem efist því næst um tilverurétt hennar. Ekki megi hoppa á sveif með þeim sem vilja slökkva á Ríkisútvarpinu eða skerða starfsemi þess að óathuguðu máli, segir Steinunn, og tiltekur sérstaklega þá sem vilja að Ríkisútvarpið hætti að selja auglýsingar. Segir hún að sjálfsagt ætti að þykja að hafa íslenskt auglýsingaefni á miðlinum enda varðveiti auglýsingar sérkenni þjóða og menningu.

„Ég ætla mér að sækja um stöðu útvarpsstjóra vegna þess að mér þykir vænt um Ríkisútvarpið og trúi staðfastlega á mikilvægi þess og læt engan segja mér annað. Ég á enga vildarmenn í ráðandi ríkisstjórn, þekki engan stjórnarmann Ríkisútvarpsins persónulega og hef bókstaflega engu að tapa,“ klykkir Steinunn út með.

Umsóknarfrestur um stöðu útvarpsstjóra rennur út á mánudag, en stjórn RÚV framlengdi frestinn um viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert