Svaf með steinvölu undir bakinu

„Ef þú ert ekki tilbúinn til að vera úti í …
„Ef þú ert ekki tilbúinn til að vera úti í náttúrunni, í fjöllunum og á túndrunni, þá áttu bara að vera að gera eitthvað annað,“ segir Stefán en hann hefur stundað hreindýrabúskap í áratugi. mbl.is/Ásdís

Vestast á Suður-Grænlandi á bújörðinni Isortoq býr Íslendingurinn og hreindýrabóndinn Stefán Hrafn Magnússon.

Allt frá æsku hefur lífið á köldum norðurslóðum heillað Stefán. Í næstu viku kemur út ævisaga hans, Isortoq – Stefán hreindýrabóndi, eftir Svövu Jónsdóttur. Í fjóra áratugi hafa hreindýr verið hans ær og kýr og hefur Stefán lent í ótrúlegum ævintýrum á lífsleiðinni.

Áhugi á Inúítum

Stefán Hrafn var óvenjulegt barn. Hann hafði strax áhuga á menningu fólks á norðurslóðum og drakk í sig allt sem hann komst yfir um Inúíta, landkönnuði og lífið í gamla daga.

„Ég hafði alltaf áhuga á mannfræði, allt frá æsku, og lagðist í bækur um Inúíta. Ég las allt um lifnaðarhætti þeirra og hvernig þeir lifa,“ segir hann og segist fljótlega hafa gert sér grein fyrir að hefðbundin vinna væri ekki fyrir sig.  

„Ég var hræddur við það að festast við eitthvað borgaralegt hér í Reykjavík. Ég óttaðist þá tilhugsun.“

Fór í óleyfi til Grænlands

Þegar Stefán var fimmtán ára hafði hann aldrei komið til útlanda. Áhuginn á Inúítum kveikti hjá honum þá hugmynd að hann yrði að fara til Grænlands. Þar sem hann vissi að móðir hans myndi aldrei hleypa honum einum í slíka ferð brá hann á það ráð að kaupa sér farmiða án þess að segja nokkrum manni frá því. Hann skrifaði móður sinni kveðjubréf en stakk bréfinu óvart ofan í skúffu.

„Ég keypti sjálfur flugmiðann fyrir minn pening. Sölustjórinn hjá SAS spurði í þaula: „Hvað, máttu fara?“ „Jájá,“ svaraði ég,“ segir Stefán og hlær.

Á meðan Stefán undi sér vel við veiðar á Grænlandi var móðir hans mjög áhyggjufull á Íslandi, enda fann hún ekki bréfið fyrr en tveimur dögum eftir brottför drengsins. Um leið og bréfið fannst var farið að leita að Stefáni á Grænlandi og fannst hann á þriðja degi.

Ferðin reyndist upphafið að ævintýraferðum Stefáns en eftir þessa ferð fékk hann leyfi hjá móður sinni til ferðalaga.

Steinninn var vekjaraklukka

Eftir heimkomuna fór Stefán í Bændaskólann á Hvanneyri því hann vissi snemma að hann vildi verða bóndi þótt hann væri ekki búinn að ákveða hvers konar bóndi. Það leið ekki á löngu þar til Stefán var kominn í starfsnám í hreindýrarækt í Noregi. 

Vestast á Suður-Grænlandi á bújörðinni Isortoq býr Stefán en hann …
Vestast á Suður-Grænlandi á bújörðinni Isortoq býr Stefán en hann er hreindýrabóndi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég bjó hjá Samafjölskyldu í bæ sem heitir Katokeino. Í Finnmörk er stærsta hreindýraræktarhérað Noregs með hundrað þúsund hreindýr. Ég bjó með þeim í húsi yfir veturinn en svo þegar við fórum út á víðáttuna vorum við í gangnakofum, ýmist úr torfi eða tré. Á sumrin bjuggum við í tjaldi en þá var verið að flytja dýrin frá vetrarbeitarlöndum til sumarbeitarlanda,“ segir hann.

En þetta voru engin venjuleg nútímalúxustjöld.

„Þetta var eins og indíánatjald, ekki með neinu gólfi og eldstæði í miðjunni. Það óx birkiskógur allt í kring þannig að nógur var eldiviðurinn. Það er hlýtt inni í tjaldinu þegar eldurinn brennur þótt úti sé frost. Ég var með góðan svefnpoka og svaf í ullarnærfötum. Maður þurfti að hafa eldiviðinn tilbúinn innan seilingar áður en maður sofnaði, fyrir næsta dag. Við vöknuðum alltaf upp úr þrjú eða fjögur en þá fara hreindýrin á stjá. Þá kveikir maður upp því úti er kannski tuttugu stiga frost,“ segir Stefán en hann var 19 til 21 árs á þessum árum sem hann dvaldi og vann með Sömum.

Einn var sá siður sem Stefán tók upp eftir Sömunum þegar hann bjó með þeim en hann var að sofa með steinvölu undir bakinu. Blaðamaður, sem alla ævi hefur sofið í mjúku rúmi, skilur ekki tilganginn og biður um útskýringu.

„Eftir svona þrjá tíma fer þetta að verða óþægilegt og mann fer að verkja undan steininum. Þá vaknar maður. Þetta er bara vekjaraklukka!“ segir hann og skellihlær.

Frekar lifandi en dauð

Stefán hefur nú búið á Grænlandi og stundað hreindýrabúskap í um aldarfjórðung. Hann dvelur einnig mikið á Íslandi á veturna.

„Hreindýrin eru þá á víðavangi og passa sig sjálf.“

Stefán valdi sér líf þar sem hann fær að njóta …
Stefán valdi sér líf þar sem hann fær að njóta náttúrunnar. Ljósmynd/Aðsend

Aukabúgrein hjá Stefáni er ferðamennska og er hann með gistiheimili á búgarðinum sínum. Veiðifélagið Lax-á selur veiðileyfi á svæði Stefáns, hann skipuleggur gönguferðir og segir að hreindýrin séu nú orðið einnig aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

„Okkar hjörð er bæði hreindýr og ferðamenn. Í framtíðinni langar mig frekar að hafa viðurværi af hreindýrunum lifandi en dauðum,“ segir hann og hlær.

Viðtalið í heild er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »