Eggjum kastað í fyrrverandi hús ritstjóra DV

Rapparinn Króli vandar DV ekki kveðjurnar. Til hægri er Lilja …
Rapparinn Króli vandar DV ekki kveðjurnar. Til hægri er Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri DV. Ljósmynd/Samsett

Forsíðufrétt dagblaðsins DV um húsakost margra fremstu tónlistarmanna landsins hefur vakið athygli. Þar birtir blaðið myndir af heimilum ýmissa ungra tónlistarmanna eftir upplýsingum unnum upp úr þjóðskrá og símaskránni. Meint heimili Herra Hnetusmjörs, GDRN, Flóna, Arons Can og Young Karinar eru meðal þeirra sem birtast í blaðinu, en ekki virðist hafa verið haft fyrir því að heyra í nokkrum þeirra til að sannreyna upplýsingarnar eða bera undir tónlistarfólkið hvort það kæri sig um að birtast á síðum DV.

Það síðastnefnda virðist fara mest fyrir brjóstið á tónlistarmönnunum, sem hvetja margir hverjir til þess að fólk sniðgangi DV, enda sé það sorpmiðill. Hafa sumir þeirra svarað í sömu mynt með því að birta myndir af heimili Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, ritstjóra DV, á samfélagsmiðlum, ásamt heimilisfangi og símanúmeri.

Ekki vildi þó betur til en svo að margir birtu þess í stað mynd af fyrrverandi heimili ritstjórans í Laugarneshverfi í Reykjavík, sem enn er skráð heimili hennar í símaskránni. Eggjum var kastað í umrætt hús í Laugarneshverfi í gær, sennilega vegna þessa máls.

Úr umfjöllun DV.
Úr umfjöllun DV. mbl.is

Meðal þeirra sem kalla eftir sniðgöngu er Aron Már Ólafsson, Aron Mola, leikari sem nýtur mikilla vinsælda, en hann er jafnframt einn eigenda fjölmiðilsins 101 Útvarps. Aron varð ekki sjálfur fyrir barðinu á hnýsni DV en segir í tilkynningu til 25.000 fylgjenda sinna að honum finnist ekki í lagi að vinir hans séu teknir fyrir á þennan hátt.

Sjálfur hafi hann oft lent í því að blaðið hafi tekið verk hans og snúið út úr þeim og slegið upp með fáránlegri fyrirsögn. „Þetta eru apar sem vinna hjá þessu fyrirtæki,“ segir Aron og birtir jafnframt mynd af heimili Lilju Katrínar.

mbl.is