Fann gleðina í þjálfuninni

Indíana Nanna Jóhannsdóttir höfundur nýrrar bókar um fjarþjálfun.
Indíana Nanna Jóhannsdóttir höfundur nýrrar bókar um fjarþjálfun. Rax / Ragnar Axelsson

Indíana Nanna Jóhannsdóttir einkaþjálfari hefur sent frá sér bókina Fjarþjálfun þar sem hún gefur holl ráð og farið er yfir ýmsar góðar grunnæfingar í máli og myndum. 

„Þetta kom þannig til að Björn Bragi Arnarsson hjá bókaútgáfunni Fullt tungl bar þessa hugmynd undir mig; að skrifa bók um fjarþjálfun. Ég þurfti að hugsa mig aðeins um en komst fljótt að þeirri niðurstöðu að þetta væri spennandi verkefni og sló því til,“ segir Indíana Nanna Jóhannsdóttir sem sendi á dögunum frá sér bókina Fjarþjálfun.

Indíana starfar sem einkaþjálfari, auk þess sem hún hefur verið að deila fróðleik hér og þar undanfarin misseri, svo sem á samfélagsmiðlum. „Það hefur þó ekki verið á heildstæðu plani og þess vegna var hugmyndin svo heillandi; að taka allt sem ég hef verið að miðla saman á einum stað. Ekki spillti heldur fyrir að engin bók af þessu tagi er til á íslensku.“

Krefjandi og skemmtilegt

Mikið er til af erlendum bókum um fjarþjálfun og Indíana kveðst hafa kynnt sér sumt af því, auk þess sem hún var með sínar eigin hugmyndir. „Þetta var mjög krefjandi og tímafrekt verkefni með fullri vinnu, auk þess sem ég á fimmtán mánaða gamlan son, en líka ofboðslega skemmtilegt. Það sem kom mér mest á óvart var hvað ég hef sjálf lært mikið af því að taka saman lærdóm fyrir aðra,“ segir hún hlæjandi.

Og höfundurinn er mjög ánægður með útkomuna en valinn maður var í hverju rúmi við gerð bókarinnar. Sigrún Ebba Urbancic ritstýrði, Ernir Eyjólfsson og Baldur Kristjánsson tóku ljósmyndir og umbrot og hönnun var í höndum Rakelar Tomas og Oddnýjar Svövu.
Indíana og Friðrik Dór héldu sameiginlegt útgáfuhóf í vikunni en Fullt tungl gefur nú fyrir jólin einnig út matreiðslubókina Léttir réttir Frikka. „Hófið heppnaðist mjög vel og það var yndislegt að fagna með sínu fólki. Við erum á fullu í kynningarvinnu þessa dagana, bókin hefur farið vel af stað og ég er bjartsýn á framhaldið.“

Teygjur eru ekki spennandi en þær borga sig margfalt.
Teygjur eru ekki spennandi en þær borga sig margfalt. Mynd/Baldur Kristjánsson


Handboltastelpa í grunninn

Indíana er handboltastelpa í grunninn; æfði þá ágætu íþrótt frá sex ára aldri og fram á fullorðinsár og er raunar ennþá að leika sér í handbolta í utandeildinni. Hún stefndi þó í allt aðra átt um tíma; lauk BA-prófi í lögfræði, var komin með vinnu í faginu og ætlaði að verða lögfræðingur. „Af einhverjum ástæðum var það samt ekki að smella; ég fann ekki gleði í því sem ég var að gera. Þess vegna fór ég í einkaþjálfaraskólann hjá World Class og byrjaði í framhaldi af því með mína eigin hópeinkaþjálfun og leigi aðstöðu hjá World Class í Ögurhvarfi. Í þjálfun fann ég gleði og ástríðu.“

Nánar er rætt við Indíönu Nönnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »