Safna fyrir fjölskyldu sem missti allt í bruna

Sigurður Aðalgeirsson, Hólmfríður Guðmundsdóttir og dætur þeirra, Sóley og Bryndís, …
Sigurður Aðalgeirsson, Hólmfríður Guðmundsdóttir og dætur þeirra, Sóley og Bryndís, misstu heimili sitt í bruna á föstudag. Ljósmynd/Aðsend

Hafin er styrktarsöfnun fyrir íslenska fjölskyldu sem missti heimili sitt í bruna í suðurhluta Noregs aðfaranótt föstudags.

Í samtali við mbl.is segir Bryndís Sigurðardóttir, móðir fjölskylduföðurins Sigurðar, að hann hafi vaknað um miðja nótt við brak og bresti og séð stofuna í ljósum logum. Fjölskyldan, Sigurður, Hólmfríður og dætur þeirra tvær, hafi hraðað sér út en um tuttugu mínútum síðar er slökkvilið kom á vettvang hafi húsið verið brunnið til kaldra kola.

„Þetta er afskaplega sárt, en auðvitað guðs mildi að þau björguðust öll,“ segir Bryndís. Fjölskyldan dvelur nú á hóteli yfir helgina og bíður þess að tryggingafélagið verði opnað að nýju. Bryndís segir að fjölskyldan hafi mætt miklum hlýhug. Bekkjarfélagar eldri dótturinnar hafi boðið henni til sín, og vinnufélagar Hólmfríðar hafið fatasöfnun fyrir dætur þeirra.

„Ég veit ekki stöðuna á söfnuninni því reikningurinn er bara skráður á fjölskylduna, en miðað við öll þau skilaboð sem við höfum fengið hefur þetta farið mjög vel af stað,“ segir Bryndís, sem hlakkar til að fá fjölskylduna heim um jólin, en þau höfðu þegar bókað flug til landsins 19. desember.

Styrktarreikningur Sigurðar, Hólmfríðar og dætra:

Kennitala: 030787-2939
Reikningsnúmer: 0140-26-1144

mbl.is