Andlát: Kristmundur Bjarnason

Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg.
Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg.

Kristmundur Bjarnason, rithöfundur og fræðimaður á Sjávarborg í Skagafirði, lést á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki 4. desember sl., 100 ára að aldri.

Kristmundur fæddist á Reykjum í Tungusveit 10. janúar 1919. Foreldrar hans voru Kristín Sveinsdóttir og Bjarni Kristmundsson en fósturforeldrar voru sr. Tryggvi H. Kvaran á Mælifelli og Anna Gr. Kvaran.

Kristmundur gekk hefðbundna skólagöngu í heimahéraði en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1940. Frá árinu 1949 var Kristmundur bóndi á Sjávarborg og stundaði fræðimennsku og ritstörf meðfram bústörfum. Hann varð fyrsti héraðsskjalavörður Skagfirðinga og sinnti því starfi allt til ársins 1990.

Kristmundur varð landsþekktur fyrir fræðastörf sín og skilur hann eftir sig fjölda ritverka sem lengi framan af voru unnin meðfram annasömum bústörfum. Þegar á námsárum sínum fékkst hann við þýðingar á barna- og unglingabókum og má þar nefna bókaflokka eftir Enid Blyton og söguna af Stikilsberja-Finni eftir Mark Twain. Umfangsmesti hluti ritstarfanna var helgaður sagnfræði og þjóðlegum fróðleik. Af viðamiklum verkum Kristmundar má nefna, án uppröðunar: Saga Þorsteins frá Skipalóni, Jón Ósmann ferjumaður, Saga Sauðárkróks til ársins 1947, Saga Dalvíkur, Sýslunefndasaga Skagafjarðar, Svipmyndir úr sögu Gríms Thomsen, Sauðárkrókskirkja og formæður hennar, auk ótölulegs fjölda greina í blöðum og tímaritum.

Síðasta stórvirki Kristmundar var ritverkið Amtmaðurinn á einbúasetrinu, ævisaga Gríms Jónssonar, amtmanns á Möðruvöllum, sem kom út á 90 ára afmæli hans. Í tilefni 100 ára afmælis Kristmundar gaf Sögufélag Skagfirðinga út bernskuminningar hans, Í barnsminni - minningaslitur frá bernskuárum. Sölvi Sveinsson annaðist útgáfuna en bókina ritaði Kristmundur á árunum 2005-2006.

Kristmundur var heiðursfélagi Sögufélags Skagfirðinga og hlaut margar viðurkenningar fyrir sín störf, m.a. Viðurkenningu Hagþenkis og Samfélagsverðlaun Skagafjarðar.

Eiginkona Kristmundar var Hlíf Ragnheiður Árnadóttir, f. 1921, en hún lést árið 2013. Dætur þeirra eru Heiðbjört, Guðrún Björg og Bryndís Helga. Barnabörnin eru 9 talsins og barnabarnabörnin 20.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert