Auddi réttilega efins um falsaða mynd

Allævintýraleg mynd birtist á aðganginum WOW Travel (sem hefur þó …
Allævintýraleg mynd birtist á aðganginum WOW Travel (sem hefur þó ekkert að gera með hið fallna flugfélag) á dögunum. Auðunn Blöndal og fleiri voru á einu máli um að eitthvað væri bogið við myndina, ef ekki allt. Skjáskot/Twitter

Það væri áhugavert að hitta ljósmyndara færan um að ná þessu öllu í einu skoti: Norðurljós á himni, eldgos í fullkominni upplausn og heimamenn í góðu yfirlæti í náttúrulaug. 

Maður fær svona tækifæri um það bil aldrei nokkurn tímann á ferlinum.

Á þessa leið er málflutningur vantrúaðs Twitter-notanda, Craigs, í athugasemdum hans við það sem virðist vera fölsuð mynd af fólki í íslenskri náttúru. Craig er ljósmyndari sjálfur en þó er það ekki nauðsynlega afbrýðin ein sem talar. Aðrir málsmetandi meta málið með sama móti: Myndin er gerfölsuð.

Málsmetandi á meðal er Auðunn Blöndal fjölmiðlamaður, sem spyr í stafrænum hæðnistón hvort fylgjendur sínir kannist við einhvern á myndinni, eftir að hafa tjáð ljótan grun sinn um að myndin sé „fake“.

Auðuni berst fjöldi misalvarlegra svara og flestir henda gaman að myndargreyinu. Að lokum svarar Bróseph nokkur Stalín eins og hann kallar sig með ljósmynd úr raunheimum. Á daginn kemur að sú mynd er sú sem notuð er sem grunnur að þessari fölsuðu, og auðvitað tekin víðs fjarri eldfjöllum og norðurljósum.

Þetta virðist öllu nærri raunveruleikanum. Ónefndur Bróseph Stalín segist vera …
Þetta virðist öllu nærri raunveruleikanum. Ónefndur Bróseph Stalín segist vera fyrir miðju á myndinni og sannindi þess getur hver metið fyrir sig. Skjáskot/Upsouthadventures

Stalín segist vera sjálfur fyrir miðju á myndinni, sem má taka með hæfilegum fyrirvara, enda kemur vel til greina að hann hafi rakið leið sína aftur að myndinni með Google Images, sem leyfir manni að gúgla aftur á bak. Þar er myndin sem hann birtir ekki lengi að koma upp, meðal annars sem númer 17 af „23 OVERLOOKED PLACES TO VISIT IN ICELAND“.

Þetta reyndist sem sé réttilega goldinn varhugur af hálfu Auðuns, enda morgunljóst að myndin er rammfölsuð. Velta má fyrir sér hvaða ásetningur býr að baki slíkri fölsun en hinu verður að gangast við að metnaðarfullir fótósjopparar gegna mikilsverðu hlutverki í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta hrífur. Og þó frjálslega sé farið með raunveruleikann er enginn skaði skeður, nema ef vera skyldu einhver örlítil vonbrigði þegar norðurljósin láta ekki á sér kræla þegar hingað er komið, eða verra: Eldfjöllin sofa áfram værum svefni aldanna.

BSÍ er þá alla vega eins og á myndunum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert