Býst við rauðri aðvörun

Það verður ekkert ferðaveður í höfuðborginni á morgun og á …
Það verður ekkert ferðaveður í höfuðborginni á morgun og á fleiri stöðum. mbl.is/Arnar Þór

Mér finnst ekki ólíklegt að Veðurstofan eigi eftir að breyta í rauða aðvörun en það yrði þá í fyrsta sinn hér á landi,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg við mbl.is. Landsbjörg sendir út viðvaranir til hátt í fimm þúsund aðila í ferðaþjónustu vegna ofsaveðurs sem verður á landinu á morgun og miðvikudag.

„Við erum búin að setja aðvaranir á vefinn okkar safetravel.is. Þær fara á öll sjónvörpin okkar sem eru 104 talsins en þau eru á öllum bensínstöðum við hringveginn, bílaleigum og fleiri stöðum,“ segir Jónas í samtali við mbl.is.

„Við erum auk þess að streyma þessum aðvörunum landfræðilega inn í nokkur þúsund bílaleigubíla þannig að þegar þeir eru á sveimi þá poppar þetta upp hjá þeim,“ bætir Jónas við.

Hann bendir á að á vefnum safetravel.is megi finna, í fyrsta sinn á Íslandi, allar helstu ferðaaðstæður á einum stað; veður, færð á vegum, aðstæður á ferðamannastöðum, snjóflóðaspár, vefmyndavélar og sitthvað fleira.

Gamaldags aðferð sem skilar sínu

Undir hatti Safetravel sendir Landsbjörg út dreifibréf til hátt í fimm þúsund ferðaþjónustuaðila. 

„Við biðjum þá að prenta aðvörunina út, hengja upp í móttöku hjá sér, ræða við ferðamenn og benda þeim á kortið,“ segir Jónas. „Eins gamaldags aðferð og það er að prenta eitthvað út og hengja upp og tala við fólk þá skilar það gríðarlega miklu.

Hann segir að Landsbjörg geri allt sem hægt er til að fólk verði ekki á ferli í brjáluðu veðrinu.

„Það er ákveðin óvissa með spár á ákveðnum stöðum, hvort þetta verði rigning eða snjókoma af því að hitastigið er í kringum núllið,“ segir Jónas og ítrekar að aðvörun Veðurstofunnar gæti hæglega orðið rauð.

Björgunarsveitir alltaf klárar í slaginn

Hann segir að auk þess að brýna fyrir sem flestum að vera ekki á ferli í ofsaveðrinu á morgun og miðvikudag séu björgunarsveitir tilbúnar að fara í útköll vegna veðurs.

„Við brýnum fyrir okkar fólki að vera til taks. Það verður fundur hjá aðgerðastjórn á höfuðborgarsvæðinu um miðjan daginn þar sem við förum yfir stöðuna og samræmum aðgerðir,“ segir Jónas sem býst við því að það verði nóg að gera, þrátt fyrir aðvaranir:

„Okkur finnst mjög líklegt að það verði útköll hér og þar á morgun og björgunarsveitir eru klárar í slaginn eins og alltaf.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert