Festingar klipptar og hjólum stolið

Þorvaldur Daníelsson hjá Hjólakrafti.
Þorvaldur Daníelsson hjá Hjólakrafti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er slítandi að standa í þessu. Sérstaklega því maður er að lána krökkum hjól sem ekki eiga nein,“ segir Þorvaldur Daníelsson hjá Hjólakrafti sem heldur námskeið fyrir ungt fólk sem ekki á hjól. Tveimur hjólum úr hans eigu var stolið aðfaranótt sunnudags og skemmdarverk unnin á tveimur til viðbótar. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hjólum úr hans eigu er stolið. Alls hafa átta verið stolið en hann hefur fengið fjögur þeirra til baka. Hjólin voru læst og geymd með hjólafestingum á toppnum á bílnum og einnig aftan á honum. Festingarnar voru klipptar í sundur og eyðilagðar þegar hjólin voru tekin traustataki. Slíkar festingar kosta rúmlega hundrað þúsund krónur. Kostnaðurinn er því talsverður fyrir utan tímann sem fer í að fá nýjar en það sem vegur þyngst er að færri geta fengið hjól lánuð.  

Þorvaldur heldur úti námskeiðum hjá Hjólakrafti fyrir ungt fólk á öllum aldri og markmiðið er einkum að ná til þeirra sem ekki hafa fundið sig í öðrum íþróttum. Hjólakraftur er með þessi hjól til umráða fyrir einstaklinga sem vilja hjóla en eiga þau ekki. 

Þorvaldur hvetur fólk sem hefur rekist á þessi hjól í umferð að hafa samband. Þegar hann leitaði til lögreglunnar síðast þegar hjólum úr hans eigu var stolið aðhafðist lögreglan lítið. Þá náðust myndir úr eftirlitsmyndavélum af hjólaþjófnum þar sem hann fór inn á lóð Þorvaldar og tók hjól. Hins vegar þótti ekki æskilegt að Þorvaldur dreifði mynd af þjófnum á samfélagsmiðlum samkvæmt persónuverndarlögum. „Þetta er mjög öfugsnúið allt saman, vægast sagt,“ segir Þorvaldur og spyr hvers vegna ætti fólk þá að vera með eftirlitsmyndavélar ef það nýtist svo varla. 

Í því tilviki var það eftirtektarsamur borgari sem rak augun í hjólin og lét Þorvald vita. Í þessu tilviki náðust myndir og spor af meintum hjólaþjóf. Þorvaldur er hæfilega vongóður um að þjófurinn náist en biðlar til almennings um að hafa augun hjá sér. 

Spurður hvort til greina komi að geyma hjólin með öðrum hætti, segist hann hafa velt því fyrir sér. Hins vegar finnist honum súrt ef hjólin geti ekki staðið þarna læst í nokkra klukkutíma á sólarhring því alla daga er hann á ferðinni með hjólin að halda námskeið. „Þetta myndi þýða meiri vinnu fyrir mig að setja þau á og taka af bílnum alla daga,“ segir hann. Þetta yrðu nokkrir auka klukkutímar á viku sem hann mætti ekki við að verja í slíkt óþarfa stúss.

Þorvaldur hefur samt reynt að aðstoða þá sem sem ásælast eigur annarra. Síðasta sumar lagaði hann og gaf, í félagi við Bjartmar Leósson, fimm hjól til Gistiskýlisins. Á þau var málað Gistiskýlið, deilihjól. Þau hafa nýst þar vel en síðast þegar hann vissi voru þrjú í fullri notkun en tvö þeirra voru týnd. 

„Það er slítandi að standa í þessu. Sérstaklega því maður er með þessi hjól fyrir krakka sem ekki eiga nein,“ segir Þorvaldur Daníelsson hjá Hjólakrafti. Tveimur hjólum úr hans eigu var stolið aðfaranótt sunnudags og tveimur til viðbótar var stolið.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert