Icelandair aflýsir öllu flugi síðdegis á morgun

Búið er að aflýsa öllum brottförum Icelandair frá Keflavíkurflugvelli síðdegis á morgun.

Appelsínugul veðurviðvörun hefur verið gefin út víðast hvar á landinu og gengur viðvörunin í gildi kl. 13 á suðvesturhorni landsins. 

Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair munu raskanir á flugi hafa áhrif á um 4.000 farþega félagsins, sem allir hafi verið upplýstir um stöðu mála.

Gert er ráð fyrir að allt flug til Evrópu verði á áætlun í fyrramálið, en hefur öllu flugi frá Evrópu til Íslands verið seinkað og verður brottför þeirra við fyrsta tækifæri á miðvikudagsmorgun.

170 þáðu að flýta brottför

Öllu flugi til Evrópu og Bandaríkjanna frá Keflavík síðdegis á morgun hefur verið aflýst, en hafa um 170 farþegar þegið boð um að flýta brottför sinni til dagsins í dag. „Þrátt fyrir það verða um erlendir 520 farþegar sem eiga flug til Evrópu og Bandaríkjanna seinnipartinn á morgun áfram hér á Íslandi og mun Icelandair útvega þeim hótelgistingu.“

Miðað við núverandi veðurspá er vonast til þess að flug verði að mestu leyti á áætlun á miðvikudagsmorgun. Þó er gert ráð fyrir einhverjum seinkunum, t.d. til Manchester og Osló.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert