Lítur málið alvarlegum augum

Búist er við aftakaveðri á morgun.
Búist er við aftakaveðri á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Almannavarnanefnd Skagafjarðar hefur lokið fundi vegna yfirvofandi óveðurs. Hún lítur málið alvarlegum augum, enda er í fyrsta skipti hérlendis gefin út rauð viðvörun vegna veðurs.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Lögreglan biðlar til fólks að halda kyrru fyrir enda verður ekkert ferðaveður á morgun. Búast má við víðtækum vegalokunum í umdæminu strax í fyrramálið.

Fólki er einnig bent að huga sérstaklega vel að öllum lausamunum utandyra, svo sem ruslatunnum og öðru sem gæti valdið tjóni og eða skaða.

Sjávarmál verður í hærra lagi og því eru smábátaeigendur beðnir um að huga að bátum sínum og festa þá vel.

Allt skólahald í umdæminu, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, fellur niður og öll íþróttamannvirki verða lokuð.

Rafmagn gæti einnig raskast vegna veðurs.

Gangi veðurspá að fullu eftir þarf fólk að verða meðvitað um að það getur reynst miklum erfiðleikum bundið fyrir viðbragðsaðila að komast á vettvang og getur tekið langan tíma. Það þarf samt að sjálfsögðu að tilkynna allt tjón strax. Minnt er á neyðarnúmerið: 1-1-2.

mbl.is