Mæla með kakóbolla í ofsaveðrinu

Veður hefur ekki verið neitt sérstakt í morgun en gert …
Veður hefur ekki verið neitt sérstakt í morgun en gert er ráð fyrir ofsaveðri á stórum hluta landsins á morgun. mbl.is/Arnar Þór

Lögreglan á Suðurnesjum hvetur fólk til að halda sig heima við á morgun en spár gera ráð fyrir ofsaveðri. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra og miðhálendið en viðvaranirnar taka gildi á morgun.

Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Suðurnesjum klukkan 13:00 á morgun. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að víðtækar samgöngutruflanir séu líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður á meðan viðvörun er í gildi.

Auk þess er nauðsynlegt að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.

Spáin á morgun, 10. desember, lítur hreint út sagt ekki vel út. Þetta er ekkert ferðaveður svo við mælum eindregið með því að fólk verði heima við, jafnvel með rjúkandi kakóbolla og piparkökur,“ segir í færslu lögreglunnar á Suðurnesjum.

Enn fremur segir lögreglan að ómögulegt sé að segja til um hvort Reykjanesbrautinni verði lokað á morgun og hvenær þá. Fólk er hvatt til að fylgjast með veðurspám en bent er á að ferðalög í svona veðrum eru ekki talin æskileg.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert