Refsirammi vegna barnaníðsefnis verði aukinn

Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Kastljósi á RÚV í …
Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Kastljósi á RÚV í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Varahéraðssaksóknari segir mikilvægt að refsirammi vegna barnaníðsefnis verði aukinn áður en stórt mál komi upp hér á landi. Ekki dugi að gera það til að bregðast við eftir að slíkt komi upp.

Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Kastljósi á RÚV í kvöld, þar sem fjallað var um barnaníðsefni og hún var gestur ásamt Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Sögðu þær báðar að umfang barnaníðsefnis hefði aukist gríðarlega á undanförnum árum, og að í stað þess að tugir eða hundruð ljósmynda og myndskeiða af barnaníði fyndust í tölvum barnaníðinga hlypu þær nú á þúsundum, hundruðum þúsunda og milljónum.

Hámarksrefsing vegna vörslu barnaníðsefnis hérlendis er tveggja ára fangelsisvist, en Kolbrún bendir á að í Noregi, þar sem hámarksrefsing er nú þrjú ár, sé verið að skoða stækkun refsirammans upp í sex ár í kjölfar umfangsmikils barnaníðsefnismáls þar sem um var að ræða milljónir mynda. 

„Það er mikilvægt að gera áður en stór mál koma upp, fremur en að bregðast við eftir að þau gerast,“ sagði Kolbrún.

mbl.is