Sýknaður af nauðgun á nýársmorgun

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði á dögunum ungan karlmann af ákæru um að hafa nauðgað kærustu sinni á heimili hennar að morgni nýársdags 2018. 

Var hann sakaður um að hafa haft við hana samræði án hennar samþykkis með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga. Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms var sönnunarbyrðin ekki næg til sakfellingar, enda hafi framburður mannsins verið stöðugur og ekkert til þess fallið að rýra trúverðugleika hans. Unga konan hafi jafnframt virst einlæg, en að minni hennar hafi verið gloppótt um það sem átti sér stað.

Atvik voru með þeim hætti að maðurinn sótti konuna í partí um klukkan 6 að morgni nýársdags, en þau höfðu þá verið par í um hálft ár. Bar þeim saman um að þau hefðu farið heim til hennar og í svefnherbergið. Skömmu síðar hafi hún farið fram til þess að spjalla við móður sína og móðursystur áður en hún hafi komið aftur inn í svefnherbergið.

Manninn og konuna greinir á um atvik eftir að hún sneri aftur í svefnherbergið, en hún taldi hann hafa verið sofandi og að hún hafi svo vaknað við að hann var að hafa við hana samræði. Hann kveðst hins vegar ekki hafa verið sofandi og segir konuna hafa átt frumkvæði að kynlífinu, sem hafi staðið í stutta stund áður en hún spurði hvað hann væri að gera.

Dómurinn sagði að ekki yrði ráðið af framburði vitna að konan hafi verið of ölvuð til að geta veitt samþykki fyrir samræði, en féllst hins vegar á með ákæruvaldinu að konan hefði komist í mikið uppnám vegna atviksins, en hún var síðar greind með áfallastreituröskun í samhengi við alvarlegan kvíða sem hún þjáðist þegar af, en sálfræðingur sem kom fyrir dóminn sagði konuna þjást af sjaldgæfum sjúkdómi sem ylli miklum sársauka. Konan væri viðkvæm og að upplifun hennar af meintu broti og afleiðingum þess kynnu að vera ýktari eða verri vegna sjúkdómsins.

Unga parið var eitt til frásagnar og samkvæmt lögum þarf ákæruvaldið að sanna sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag. Taldi dómurinn saksóknara ekki hafa axlað sönnunarbyrði og var maðurinn því sýknaður. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert