Viðvörunarstig hækkað í appelsínugult

Appelsínugul viðvörun er í gildi víðast hvar um landið á …
Appelsínugul viðvörun er í gildi víðast hvar um landið á næstu sólarhringum. Kort/Veðurstofa Íslands

Viðvörunarstig gildir nú fyrir alla landshluta á einhverjum tímapunkti fram á aðfaranótt fimmtudags vegna norðanstórhríðar og storms sem vænst er að gangi yfir landið. Áður hafði verið gefin út gul viðvörun, en Veðurstofan hefur hækkað viðvörunarstigið á öllu landinu nema á Austurlandi og Suðausturlandi.

Samkvæmt viðvörunum á vefsíðu Veðurstofunnar má búast við ofsaveðri, allt að 23—33 m/s, á Ströndum, Norðurlandi vestra og hálendinu og allt að 23—30 m/s við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra.

Veðurvefur mbl.is

Á höfuðborgarsvæðinu, við Faxaflóa og á Suðurlandi má einnig búast við ofsaveðri, 20—28 m/s og geta íbúar búist við samgönguturflunum og lokunum á vegum. Hætta er talin á foktjóni og sérstaklega tekið fram að ekkert ferðaveður sé meðan veðrið gangi yfir.

Appelsínugula viðvörunin hefst á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum á þriðjudagsmorgun. Versta veðrinu er spá á Norðurlandi vestra og Ströndum, en einnig við utanverðan Eyjafjörð og á Öxnadalsheiði.

Þegar líður á daginn færir ofsaveðrið sig á Breiðafjörð og sunnanverða Vestfirði auk þess sem viðvörun fyrir miðhálendið tekur einnig gildi þá. Um klukkan fjögur síðdegis nær viðvörunin svo til Faxaflóasvæðisins, höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og Suðurlands líka. Stendur viðvörunin yfir til miðvikudagsmorguns og á Norðurlandi eystra fram á síðdegi miðvikudags.

Viðvaranir fyrir næstu sólarhringa má í heild sjá hér að neðan og á vefsíðu Veðurstofunnar.

Höfuðborgarsvæðið

Norðanstormur eða -rok (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 16:00 – 11. des. kl. 07:00

Gengur í norðanstorm eða -rok, 20—28 m/s. Hvassast vestan til í borginni, á Kjalarnesi og Mosfellsbæ. Samgöngutruflanir eru líklegar á meðan veðrið gengur yfir og truflanir á flugsamgöngum. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.

Suðurland

Norðan- og norðvestanstormur eða -rok (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 15:00 – 11. des. kl. 10:00

Gengur í norðan- og norðvestanstorm eða -rok, 20—28 m/s. Hvessir fyrst vestan til á svæðinu. Búast má við samgöngutruflunum og lokunum á vegum. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. Dregur úr vindi aðfaranótt miðvikudags, en bætir þá í vind undir Eyjafjöllum og má búast við 23—33 m/s á þeim slóðum þar til seint á miðvikudag.

Faxaflói

Norðanrok (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 13:00 – 11. des. kl. 10:00

Gengur í norðanrok 20—28 m/s. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Breiðafjörður

Norðanrok (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 12:00 – 11. des. kl. 08:00

Útlit er fyrir norðaustan- og síðan norðanrok, jafnvel ofsaveður, (23 til 30 m/s). Líkur eru á snjókomu og skafrenningi með vindinum og gæti skyggni og færð versnað hratt. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Vestfirðir

Norðanstórhríð (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 07:00 – 11. des. kl. 09:00

Útlit er fyrir norðaustan- og síðan norðanrok, jafnvel ofsaveður, (23 til 30 m/s) með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Strandir og Norðurland vestra

Norðanhríð (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 07:00 – 11. des. kl. 14:00

Útlit er fyrir norðaustan- og síðan norðanrok, jafnvel ofsaveður, (23 til 33 m/s) með talsverðri eða mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Norðurland eystra

Norðan- og norðaustanstórhríð (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 08:00 – 11. des. kl. 21:00

Norðaustan og síðan norðan rok (23 til 30 m/s) með talsverðri eða mikilli snjókomu eða skafrenningi, einkum við utanverðan Eyjafjörð og á Öxnadalsheiði. Mun hægari vindur austast á spásvæðinu þar til seint á þriðjudag. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.

Austurland að Glettingi

Austanhvassviðri og snjókoma (gult ástand)

9. des. kl. 18:00 – 10. des. kl. 04:00

Gengur í suðaustan og austan 10-18 með snjókomu og skafrenningi. Færð getur auðveldlega spillst. Blint á fjallvegum og lélegt ferðaveður.

Austfirðir

Suðaustan- og austanhvassviðri og snjókoma (gult ástand)

9. des. kl. 18:00 – 10. des. kl. 04:00

Gengur í suðaustan og austan 10-18 m/s og talsverð snjókoma og skafrenningur en síðan slydda eða rigning á láglendi eftir miðnætti. Færð getur auðveldlega spillst, og ferðaveður verið slæmt á fjallvegum.

Suðausturland

Vaxandi norðanátt og snarpar vindhviður (gult ástand)

10. des. kl. 19:00 – 11. des. kl. 06:00

Vaxand norðanátt, 18—25 m/s vestast og vindhviður staðbundið yfir 35 m/s. Hættulegt bílum sem taka á sig mikinn vind. Veður ferð ört verstandi aðfaranótt miðvikudags.

Miðhálendið

Norðanstórhríð (appelsínugult ástand)

10. des. kl. 12:00 – 11. des. kl. 22:00

Norðanrok eða jafnvel ofsaveður (23—33 m/s) og mikil snjókoma eða skafrenningur. Ekkert ferðaveður.

mbl.is