Vill hlúa að mikilvægu hlutverki RÚV

Elín skilaði í kvöld inn umsókn um starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.
Elín skilaði í kvöld inn umsókn um starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég tók þessa ákvörðun fyrir nokkru en ákvað að vanda vel til umsóknarinnar og nota tímann alveg fram á síðasta dag. Þetta er ekki ákvörðun sem ég hef tekið í skyndi,“ segir Elín Hirst í samtali við mbl.is.

Elín skilaði í kvöld inn umsókn um starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, en fresturinn rennur út á miðnætti í kvöld. Upphaflegur umsóknarfrestur rann þó út fyrir viku, 2. desember, en var framlengdur. Elín segist hafa tekið ákvörðun um að sækja um um leið og ljóst var að Magnús Geir Þórðarson yrði ekki áfram.

Elín hefur víðtæka reynslu úr fjölmiðlum, meðal annars sem stjórnandi, auk þess sem hún hefur þekkingu á stjórnsýslunni eftir starf sitt sem alþingismaður.

Hún telur sig því hafa rétta reynslu fyrir starfið og kveðst vilja hlúa að mikilvægu hlutverki Ríkisútvarpsins.

„RÚV er afar mikilvægt í okkar samfélagi sem vörður um lýðræðislega umræðu og að halda almenningi upplýstum um það sem er að gerast í heiminum. Það er mjög mikilvægt hlutverk sem ég myndi vilja halda áfram að hlúa að.“

Almenningur eigi rétt á að vita hverjir sæki um

Tilkynnt hefur verið að listi með nöfnum umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra verður ekki gerður opinber að þessu sinni. Elín segist engu að síður hafa viljað tilkynna umsókn sína. „Mér finnst þetta vera þannig starf að almenningur eigi rétt á að vita hverjir sækja um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert