Brotinn járnstaur og fjúkandi þakplötur

Björgunarsveitir hafa farið í flest útköll á Norðurlandi það sem …
Björgunarsveitir hafa farið í flest útköll á Norðurlandi það sem af er degi. Snjóþungt og hvasst er til að mynda á Akureyri. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Björgunarsveitir hafa sinnt ýmsum verkefnum á Norðurlandi, einna helst Tröllaskaga og á Skagafirði það sem af er degi. Flest verkefnin eru foktengd að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Engar fregnir hafa borist um slys á fólki. 

Björgunarsveitarfólk hefur einnig aðstoðað við fólksflutninga milli heilbrigðisstofnana og þá hefur einu trampólíni verið bjargað. „Þá er þetta byrjað,“ segir Davíð léttur í bragði. 

Á Siglufirði hafa snarpar hviður sett svip sinn á bæinn þar sem hviður hafa mest farið upp í 42 metra á sekúndu. Snúrustaur úr járni brotnaði og féll til jarðar í einni hviðunni. „Það var svolítið óvænt,“ segir Sigurður Ægisson, fréttaritari Morgunblaðsins. Spár gera ráð fyrir að veður eigi enn eftir að versna á svæðinu. 

Tómas Atli Einarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Tinds Ólafsfirði, hafði engan tíma til að ræða við blaðamann þegar slegið var á þráðinn en björgunarsveitarmenn í bænum hafa í nægu að snúast, meðal annars vegna þakplatna sem fjúka um bæinn. 

Davíð segir að annars staðar á landinu séu björgunarsveitir og aðgerðarstjórnendur búa sig undir mögulegan skell  síðdegis. „En þetta er vel viðráðanlegt í augnablikinu,“ segir Davíð.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert