Fjölskylduhjálp þiggur matargjafir með glöðu geði

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ívið færri hafa óskað eftir jólaaðstoð til Fjölskylduhjálpar Íslands í ár en í fyrra. Umsóknir verða líklega í kringum 1.200 en ekki liggur heildarfjöldi fyrir, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálpar Íslands. „Maður veit svo ekki hvað skellur á síðustu daga fyrir jól,“ segir Ásgerður og vísar til þess að fólk óski eftir aðstoð þegar hefðbundinn umsóknarfrestur er liðinn. 

Öryrkjar, eldri borgarar, einstæðar mæður og einstæðingar er fjölmennasti hópurinn sem óskar eftir aðstoð þennan mánuðinn. „Þetta er allt fólk með lága framfærslu. Það hefur lítið breyst í þessi 16 ár,“ segir Ásgerður Jóna og vísar til þess árafjölda sem hún hefur starfrækt Fjölskylduhjálpina.

Þeir sem vilja láta gott af sér leiða og hafa tök á að gefa mat geta haft samband við Fjölskylduhjálp Íslands. „Við þiggjum allan mat ef fólk vill gefa eitthvað gott í matinn til þeirra sem þurfa á því að halda. Ástandið er hrikalegt hjá þessu fólki sem leitar til okkar. Það býr við mikla neyð,“ ítrekar Ásgerður Jóna. 

Fjölskylduhjálp Íslands berast einnig jólapakkar sem fólk getur sett undir tré í Kringlunni og í Smáralind. Þeim verður úthlutað með matarúthlutun fyrir jólin. 

Reksturinn er þungur 

Allir sem óska eftir aðstoð þurfa að sýna tekjur og koma því með skattframtöl því til sönnunar. Dæmi eru um að fólki hafi verið vísað frá því það hafði of háar tekjur eða átti nokkrar fasteignir. „Það er auðvitað forkastanlegt að fólk detti í huga að óska eftir aðstoð sem býr við svona aðstæður. Þess vegna erum við mjög stífar á þessu,“ segir Ásgerður Jóna en tekur fram að slíkt sé undantekningartilfelli.  

Rekstur starfseminnar er og hefur verið erfiður, að sögn hennar. „Hvert einasta ár hefur verið erfitt. Við fáum óskaplega litla styrki. Við borgum 1.200 þúsund krónur í leigu á mánuði fyrir tvo staði, í Iðufelli og á Reykjanesi. Það er ansi töff,“ segir Ásgerður Jóna. 

Hægt er að styrkja starfsemina meðal annars með því að kaupa handgerð lífræn kærleikskerti Fjölskylduhjálparinnar. Þau fást meðal annars í Garðheimum og Nettó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert