Baðið fyrir heimferðina orðið fjarlægur draumur

Frá fjöldahjálparmiðstöðinni í Klébergsskóla
Frá fjöldahjálparmiðstöðinni í Klébergsskóla mbl.is/Orri Páll

Þrír erlendir ferðamenn bíða nú af sér veðrið í Klébergsskóla á Kjalarnesi en björgunarsveitin Kjölur opnaði þar fjöldahjálparmiðstöð að beiðni Rauða krossins fyrir stundu. Lokað er í báðar áttir frá Grundahverfi og fólkið komst því ekki leiðar sinnar. Að sögn björgunarsveitarfólks á staðnum er ekki búist við fleira fólki sem lent hefur í hremmingum vegna veðurs.

Þjóðverjinn Benjamin Schwartz var að koma norðan úr landi þegar óveðrið skall á. Hann á pantað flug heim í fyrramálið og vonast til að ná því. „Það hefði þó verið ágætt að komast á hostelið og henda sér í steypibað fyrir brottför en sennilega er það orðið fjarlægur draumur úr þessu,“ sagði hann í samtali við mbl.is. 

Hann kveðst hafa vitað að óveður væri í aðsigi en ekki reiknað með að það skylli eins hratt á og raun bar vitni. 

Josephine Lam og Matthew Leung frá Kanada eru einnig í Klébergsskóla. Þeim var nokkuð brugðið en ágætlega fór þó um þau í miðstöðinni. Þau eru á miðju ferðalagi um Ísland og eiga því ekki á hættu að missa af heimflugi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert